Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt að taka þátt í hlutafjáraukningu Ljósleiðarans, sem er dótturfélag OR, ef ekki reynist áhugi meðal fjárfesta að kaupa hlut í félaginu. Þetta kemur fram í ársreikningi OR fyrir árið 2023.
Eins og viðskiptavefur Vísis hefur fjallað um eru stjórnendur Ljósleiðarans með væntingar um að hægt verði að fá fimmtán milljarða fyrir þriðjungshlut í félaginu. Byggir það á verðmati á Ljósleiðaranum upp á fimmtíu milljarða.
Fresta fjárfestingum vegna tafa á hlutafjárútboði
Ljósleiðarinn festi kaup á stofnneti Sýnar fyrir þrjá milljarða í fyrra. Að sögn stjórnenda félagsins var tilgangurinn meðal annars til þess að veita Mílu samkeppni í gagnaflutningum á landsbyggðinni.
Eftir kaupin var ákveðið að auka þyrfti hlutafé Ljósleiðarans um ríflega þrjá milljarða að nafnvirði, eða sem nemur um þriðjungshlut í félaginu eftir fyrirhugaða hlutafjáraukningu, og andvirði þess á að nýta til uppbyggingar og greiða niður skuldir sem eru meðal annars tilkomnar vegna kaupanna á stofnnetinu.
„Það er ljóst að Ljósleiðarinn þarf nýtt fjármagn til að styðja við þann vöxt sem er áætlaður í framhaldi kaupanna,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi OR.
„Ljósleiðarinn vinnur að því að fá nýja hluthafa inn en komi til þess að hlutafjáraukningin, sem samþykkt hefur verið, gangi ekki eftir eða dragist á langinn hefur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur lýst því yfir að félagið muni auka hlutafé sitt í Ljósleiðaranum á markaðsvirði til að tryggja áframhaldandi rekstur og til að verja hagsmuni sína.“
Í afkomutilkynningu Ljósleiðarans, sem birt var í síðustu viku, kemur fram að félagið hafi ákveðið að draaga úr fjárfestingum þangað til niðurstaða fæst í hina áformuðu hlutafjáraukningu.
Aðkoma þriðja aðila tryggi að OR greiði raunverulegt markaðsverð
Stjórn Orkuveitunnar greindi skilmerkilega, í svari við fyrirspurn rýnihóps borgarráðs fyrir rúmu ári, frá afstöðu sinni til þess hvort OR sé reiðubúin til þess að leggja Ljósleiðaranum ehf. til aukið fjármagn með hækkun hlutafjár félagsins
„Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur telur farsælast að sækja aukið hlutafé alfarið til nýrra kaupenda, sem yrðu eigendur minnihluta, til að létta á fjármögnunarþörf móðurfyrirtækisins og dreifa áhættu. Verði Orkuveita Reykjavíkur þá jafnframt í betri stöðu til að auka arðgreiðslur til eiganda næstu árin. Fyrir dyrum stendur að endurskoða fjárhagsskipan og arðgreiðslustefnu Orkuveitu Reykjavíkur og ákvörðun um fjármögnun Ljósleiðarans verður að skoða í því samhengi,“ segir í bókun stjórnar OR frá því í mars 2023.
„Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er hins vegar ekki mótfallin því að leggja Ljósleiðaranum til aukið hlutafé enda telur hún brýnt að styrkja fjárhag félagsins. Stjórnin leggur áherslu á að ef til þess kæmi að Orkuveita Reykjavíkur legði fram hlutafjárframlag færi slíkt framlag fram samhliða hlutafjárkaupum frá þriðja aðila á hlut í félaginu til að tryggt verði að OR greiði raunverulegt markaðsverð fyrir hlutinn.“
Vonuðust fyrst til að klára ferlið í byrjun síðasta árs
Fyrirhuguð hlutafjáraukning, með aðkomu annarra fjárfesta en OR, var fyrst samþykkt á hluthafafundi í lok október 2022 með fyrirvara um staðfestingu eigenda, einkum Reykjavíkurborgar, sem nú liggur fyrir. Ljósleiðarinn og móðurfélagið Orkuveitan vonuðust þá til að ljúka hlutafjáraukningunni fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023.
Heimild Ljósleiðarans til hlutafjáraukningar gildir út yfirstandandi ár. Ljósleiðarinn er ekki eina dótturfélag Orkuveitunnar sem leitar að meðeigendum. Eins og fram hefur komið stendur nú leit yfir að meðeigendum Orkuveitunnar að sprotafyrirtækinu Carbfix.