Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) veittu í byrjun maí félaginu heimild til að bjóða allt að þriðjungshlut í dótturfélaginu Ljósleiðaranum til fjárfesta annarra en OR í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu.
Ljóst var að hlutafjáraukningin myndi velta á afstöðu Reykjavíkurborgar sem á 93,5% hlut í Orkuveitunni. Borgarráð ákvað í lok október að skipa sérstakan rýnihóp sem var falið að gera umsögn um tillögu stjórnar Ljósleiðarans um hlutafjáraukningu.
„Rýnihópur borgarráðs leggur sérstaka áherslu á að OR haldi meirihluta hluta í Ljósleiðaranum ehf. og að hér sé ekki um einkavæðingu Ljósleiðarans ehf. að ræða.“
Rýnihópurinn, sem var skipaður fulltrúum í borgarráði, fundaði níu sinnum frá desember til apríl. Fjármála- og áhættusvið Reykjavíkurborgar vann fyrir hópinn sjálfstætt áhættumat á sviðsmyndum Ljósleiðarans á framtíðarvirði félagsins.
Rýnihópurinn kannaði afstöðu stjórnar OR, að tillögu fjármálasviðs og borgarlögmanna, á því hvort OR væri reiðbúið að leggja Ljósleiðaranum til aukið fjármagn við hlutfjárhækkunina. Stjórn OR vísaði í minnisblað Eyþórs Arnalds og Gylfa Magnússonar þar sem segir að uppbygging og fjárfesting Ljósleiðarans sé forsenda þess að Ljósleiðarinn geti starfað sem sjálfstætt og öflugt fyrirtæki í samkeppni við Mílu.
„Jafnframt virðist skynsamlegt og raunar nánast óhjákvæmilegt að fá fleiri aðila í eigendahóp Ljósleiðarans til að það geti orðið.“
Aðkoma nýrra kaupenda myndi létta á fjármögnunarþörf móðurfélagsins og dreifa áhættu auk þess sem OR yrði í betri stöðu til að auka arðgreiðslur næstu árin. Stjórn OR sagðist þó ekki mótfallin að leggja Ljósleiðaranum til aukið hlutafé enda brýnt að styrkja fjárhag dótturfélagsins. Stjórnin lagði þó áherslu á að ef slíkt hlutafjárframlag færi fram yrði það gert samhliða hlutafjárkaupum þriðja aðila til að tryggja að OR greiði raunverulegt markaðsverð. Með því móti yrði lagalegri áhættu OR haldið í lágmarki.
Í því samhengi má nefna að Síminn, fyrrum eigandi Mílu, kvartaði til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, árið 2019 vegna fjármögnunar og lánveitingar OR til Ljósleiðarans. ESA lokaði rannsókninni í síðasta mánuði og komst að þeirri niðurstöðu að ráðstafanir OR hefðu ekki falið í sér ríkisaðstoð í skilningi ákvæða EES-samningsins, m.a. þar sem þær töldust annaðhvort of smávægilegar eða að enginn ávinningur hefði hlotist af þeim.
Meirihluti rýnihópsins féllst á að sækja yrði aukið hlutafé út á almennan markað. Leiði ytri aðstæður eða aðrir viðburðir hins vegar til þess að Ljósleiðarinn þurfi að sækja aukið hlutafé að nýju þá telur meirihlutinn hópsins rétt að þá komi fyrst til skoðunar að OR leggi til fjármagn.
„Rýnihópur borgarráðs leggur sérstaka áherslu á að OR haldi meirihluta hluta í Ljósleiðaranum ehf. og að hér sé ekki um einkavæðingu Ljósleiðarans ehf. að ræða.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um áformaða hlutafjáraukningu Ljósleiðarans í Viðskiptablaði vikunnar.