Peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands á­kvað á auka­fundi sínum á mánu­daginn að hækka fasta bindi­skyldu lána­stofnana úr 2% í 3% af bindi­grunni. Það felur í sér að bankar þurfa að hækka verulega þá upphæð sem þeir eru með bundna á engum vöxtum í Seðlabankanum með tilheyrandi kostnaði.

Breytingin tekur gildi við byrjun næsta bindi­skyldu­tíma­bils, 21. apríl.

„Ein grunn­for­senda þess að unnt sé að reka sjálf­stæða og trú­verðuga peninga­stefnu er að Seðla­banki Ís­lands búi yfir öflugum gjald­eyris­forða. Hlut­verk forðans er að draga úr á­hrifum sveiflna í greiðslu­jöfnuði með hlið­sjón af stefnu bankans í peninga- og gengis­málum. Þá dregur öflugur gjald­eyris­forði úr líkum á því að fjár­magns­hreyfingar til og frá landinu raski fjár­mála­stöðug­leika,“ segir í til­kynningu nefndarinnar.

Að mati Peninga­stefnu­nefndar er einnig um öryggis­sjóð að ræða sem hægt er að grípa til þegar stór og ó­vænt á­föll eiga sér stað sem raska gjald­eyris­öflun þjóðar­búsins.

„Slíkri tryggingu fylgir hins vegar kostnaður sem eykst eftir því sem vaxta­munur gagn­vart út­löndum er meiri. Þessi kostnaður er að mestu leyti borinn af Seðla­bankanum en aðrir inn­lendir hag­hafar njóta á­batans í formi hag­stæðari vaxta­kjara á al­þjóð­legum fjár­mála­mörkuðum.“

Sam­kvæmt nefndinni getur hækkun bindi­skyldu haft á­hrif á að­halds­stig peninga­stefnunnar en í ljósi rúmrar lausa­fjár­stöðu inn­láns­stofnana hjá Seðla­bankanum ættu skamm­tíma­á­hrif breytingarinnar að vera tak­mörkuð.

Í tilkynningu bankans segir þó að til lengri tíma muni hún hins vegar skjóta traustari fótum undir rekstur peninga­stefnunnar og þannig auka trú­verðug­leika Seðla­bankans og stuðla að bættri skil­virkni peninga­stefnunnar.