Það skýrist í næstu viku hver muni veita Bandaríkjamönnum forystu næstu fjögur árin en Kamala Harris og Donald Trump eru hnífjöfn í skoðanakönnunum vestanhafs. Margir horfa þó á annan mælikvarða um þessar mundir, sem er hvert peningurinn leitar.

Svokallaðir spámarkaðir (e. prediction markets) hafa verið að sækja í sig veðrið, þar sem einstaklingar geta veðjað á niðurstöður kosninganna, en samkvæmt þeim virðist Trump vera með nokkurt forskot á Harris. Stuðningsmenn spámarkaða telja að sú staðreynd að raunverulegir fjármunir séu í húfi og stór hópur fjárfesta liggi að baki leiði til þess að spárnar verði nákvæmari en kannanir gefa til kynna.

Samkvæmt frétt New York Times eru bæði kostir og gallar við spámarkaði og hafa rannsakendur um nokkurt skeið reynt að skera úr um hvort spámarkaðir séu betra tól en kannanir, án árangurs.