Um 70 fyrirtæki í Bretlandi með samtals 3.300 starfsmenn eru að hefja sex mánaðar tilraunaverkefni, sem snýr að því að stytta hefðbundna vinnuviku í fjóra daga. Á styttingin að fara fram án þess að laun starfsmanna lækki. Áform eru um sambærilegt verkefni á þessu ári á Spáni og í Skotlandi.
Verkefnið er knúið áfram af 4 Day Week Global herferðinni, Autonomy-hugveitunni og hópi rannsakenda í háskólunum í Cambridge, Oxford og Boston. Rannsakendahópnum er gert að mæla áhrif styttingarinnar á framleiðni fyrirtækja, vellíðan starfsmanna, jafnrétti kynjanna og umhverfið.
Hið 20. aldar hugarfar um fimm daga vinnuviku á ekki lengur við á 21. öldinni segir Ed Siegel, framkvæmdastjóri Charity Bank, en bankinn er á meðal þátttakenda í verkefninu. Siegel telur að fjögurra daga vinnuvika, án breytinga á launum muni auka vellíðan starfsmanna og jafnframt hafa jákvæð áhrif á framleiðni fyrirtækja og upplifun viðskiptavina.