Eftirlitsstofnun EFTA hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ljósleiðarinn, áður Gagnaveita Reykjavíkur, hafi ekki fengið ríkisaðstoð. Stofnunin hóf rannsókn í desember 2019 í kjölfar kvörtunar frá Símanum.

Ljósleiðarinn er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og hélt Síminn því fram að fjármögnun og lánveitingar OR til dótturfélags síns hafi leitt til ósanngjarns forskots og væri brot á EES-reglum um ríkisaðstoð.

Í rannsókn sinni skoðaði ESA hvort fjórar ráðstafanir sem kynnu að fela í sér ríkisaðstoð frá OR til GR. Þessar ráðstafanir voru stöðvun fjögurra vaxtagreiðslna til OR árið 2009, óbein fjármögnun til GR vegna lagningar ljósleiðara í sveitarfélaginu Ölfus og skammtímalánveiting til GR. Loka ráðstöfunin varðaði breytingarákvæði í lánssamningum GR við lánveitendur sem í fólst að lánveitendur öðluðust rétt til að innkalla lán sín yrði OR ekki lengur meirihluta eigandi GR.

Í kjölfar ítarlegrar skoðunar komst ESA að þeirri niðurstöðu að umræddar ráðstafanir feli ekki í sér ríkisaðstoð frá OR til GR í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins.

Að mati ESA eru ráðstafanirnar annað hvort of smávægilegar eða að enginn ávinningur hafi hlotist af þeim. Þá telur ESA einnig að seinasta ráðstöfun sé ekki rekjanleg til ríkisins. Er varðar seinni ráðstöfunina komst ESA að þeirri niðurstöðu að hún hafi ekki verið á forræði OR eins og talið var við opnun rannsóknarinnar.