Þýski bankinn Deutsche bank ákvað í morgun að segja upp 111 stjórnendum í einkabankaþjónustudeild bankans í von um að ná fjárhagslegum markmiðum sínum fyrir árið 2025.
Samkvæmt bankanum er ráðist í töluverðar hagræðingar á sviðinu sem hefur ekki verið að skila nægum hagnaði síðustu ár.
Claudio de Sanctis, sem var ráðinn yfirmaður deildarinnar í fyrra, segir að það þurfi að ráðast í enn frekari hagræðingaraðgerðir á næstu dögum.
Um 31% af tekjum Deutsche bank kemur úr einkabankaþjónustu en aðeins um 23% af hagnaði bankans samkvæmt Financial Times.
Samkvæmt forstjóra Deutsche, Christian Sewing, er það eitt af meginmarkmiðum bankans að ná viðsnúningi á þessu sviði. Sewing var framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu hjá bankanum til ársins 2018 en eftirmenn hans náðu ekki tilsettum árangri.
Bankinn er sagður binda miklar vonir við Claudio de Sanctis sem kom til bankans frá Credit Suisse.
Á því rúma ári sem hann hefur verið við völd hefur hann lokað 300 útibúum í Þýskalandi, losað um stjórnendur og sagt upp um 6,5% starfsmanna.