Samkeppniseftirlitið lagði 4,2 milljarða króna stjórnvaldssekt á Samskip á föstudaginn vegna meintra samráðsbrota á árunum eftir hrun en rannsókn málsins hefur staðið yfir frá árinu 2010.
Samkvæmt andmælum Samskipa á ætlað samráð Eimskips og Samskipa á árunum sér enga stoð í raunveruleikanum.
Hornsteinn málsins er hið svokallaða „NR – samráð“ sem Samskip segir að sé tilbúningur eftirlitsins frá A til Ö.
Samkvæmt gögnum málsins er „NR – samráðið“ heiti Samkeppniseftirlitsins á ætluðu ólögmætu samráði. Nafngiftin er fengin með því að búa til skammstöfun úr „tveimur ólíkum og alls ótengdum verkefnum“ að mati Samskipa.
Um er að ræða verkefnið „Nýtt upphaf“ sem samkvæmt Samskipum má ráða af gögnum málsins að hafi verið til innanhúss hjá Eimskip allt frá árinu 2006.
Í skjalinu er að finna hugleiðingar Eimskips um mögulegar sparnaðaraðgerðir sem félagið gæti ráðist í, annað hvort innanhúss eða í samstarfi við önnur flutningafyrirtæki.
Umrædd glærukynning fannst ekki í húsleit
Samskip hitt verkefnið lúta að vinnulagi innan stjórnar Samskipa og snúa að reglulegu endurmati rekstraráætlana.
„Vinnulagið nefnist „Revised budget“ og hefur verið, og er enn, við lýði hjá fyrirtækinu frá því löngu fyrir rannsóknartímabilið.“
„Samkeppniseftirlitið slengir þessum tveimur verkefnum saman til að fá skammstöfunina á hið meinta samráð og tengir það síðan við fund forsvarsmanna félaganna tveggja í aðdraganda bankahrunsins sumarið 2008.“
Samskip neitar því alfarið að Eimskip hafi afhent þeim glærukynninguna og segja að efni hennar hafi aldrei verið rætt við stjórnendur eða annað starfsfólk Samskipa.
„Engin vitneskja var um tilvist skjalsins innan Samskipa fyrr en eftir birtingu andmælaskjals Samkeppniseftirlitsins 2018,“ segir Samskip.
„Þrátt fyrir að umrædd glærukynning hafi ekki fundist í gögnum Samskipa, og enginn starfsmanna félagsins hafi heyrt af kynningunni fyrr en eftir birtingu andmælaskjals, þá vílar stofnunin ekki fyrir sér að gagnrýna það harðlega að stjórnendur Samskipa hafi ekki upplýst um tilvist hennar við skýrslugjöf hjá stofnuninni haustið 2013. Er það í samræmi við annað í framsetningu stofnunarinnar,“ segir í andmælum Samskipa sem var skilað til Samkeppniseftirlitsins áður en niðurstaða fékkst í málið.