Kínverskir áhrifavaldar sem staddir voru á Íslandi í síðustu viku seldu vörur frá níu íslenskum vörumerkjum fyrir 700 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem kínverska sendiráðið á Íslandi hefur sent Viðskiptablaðinu.
Söluherferðin fór fram í byrjun maí og tengdist fyrstu streymisviku sem haldin hefur verið milli Íslands og Kína. Streymisvikan fór þannig fram að kínverskir áhrifavaldar seldu íslenskar vörur á kínverskum markaði en samtímis var að eiga sér stað stór verslunarhátíð sem haldin er árlega í Kína.
Samkvæmt tölum kínverska sendiráðsins seldu áhrifavaldar vörur fyrir 35 milljón kínversk yuan, eða 700 milljónir íslenskra króna, dagana 10. – 12. maí. Salan fór fram á kínverska samfélagsmiðlinum Douyin, kínversku útgáfunni af TikTok.
Miðillinn er í eigu kínverska fyrirtækisins Bytedance og samkvæmt kínverska greiningarfyrirtækinu MoonFox eru notendur Douyin 730 milljónir talsins.
Á fyrsta degi streymisvikunnar seldust meðal annars vörur eins fyrirtækis fyrir samtals 300 milljónir króna. Þessi eins dags sala samsvaraði fjórðungi af allri sölu fyrirtækisins til Kína fyrir árið 2022.