Aptos, félag í eigu Goldman Sachs, greiddi um 140 milljónir evra, um 20 milljarða króna, fyrir íslenska hugbúnaðarfyrirtækið LS Re-tail á síðasta ári. Megnið af þeirri fjárhæð, um 17 milljarðar króna, fór til bandaríska fjárfestingafélagsins Anchorage Capital Group sem átti LS Retail en auk þess nam kostnaður við uppgjör kauprétta við starfsmenn LS Retail um þremur milljörðum króna.
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að að kaupréttarsamningarnir hafi náð til um 15 manns í stjórnendahópi LS Retail. Þar á meðal var Magnús Norðdahl, sem lét af störfum sem forstjóri LS Retail í október síðastliðnum, eftir ellefu ára starf. Um helmingurinn af þeirri fjárhæð rann í ríkissjóð þar sem tekjuskattur einstaklinga er greiddur af hagnaði kaupréttarsamninga starfsmanna en afgangurinn til starfsmannanna sjálfra.
Lausnir nýttar í 90 þúsund verslunum
Töluverður vöxtur hefur verið hjá LS Retail á undanförnum árum. Velta félagsins jókst að jafnaði um 16% árin 2014 til 2020, sem er síðasta heila reikningsár LS Retail eða úr 23 milljónum evra í 56 milljónir evra. LS Retail hagnaðist um 7,3 milljónir evra á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 samkvæmt nýbirtum ársreikningi þess en þar af nam hagnaður af áframhaldandi starfsemi 2,4 milljónum evra. 8,5 milljóna evra tap var á rekstrinum árið 2020, sem skýrðist einna helst af fyrrgreindum 22 milljóna evra kostnaði vegna uppgjörs kaupréttanna. Rekstrartekjur LS Retail af áframhaldandi starfsemi námu 41 milljón evra fyrstu níu mánuði ársins 2021.
Félagið hafi síðast verið selt á undirverði
Anchoreage fær meira en sexfalt hærri upphæð í sinn hlut fyrir LS Retail en það keypti fyrirtækið árið 2015 af ALMC, gamla Straumi-Burðarási. Kaupverðið þá nam um 17,6 milljónum evra, um 2,6 milljörðum króna. Áralöng málaferli urðu þá vegna sölunnar þá þar sem hópur starfsmanna LS Retail sem áttu kauprétti að fyrirtækinu töldu það hafa verið selt á undiverði. Hærri tilboð hafi legið fyrir enda hafi félagið væri allt að fjórfalt verðmætara. ALMC greiddi starfsmönnunum að lokum ríflega hálfan milljarð króna eftir að gerðardómur kvað upp úrskurð árið 2020 líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í október .
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:
- Hermann Haraldsson, forstjóri Boozt, er tekinn tali og ræðir m.a. um ævintýralegan vöxt félagsins á faraldurstímum.
- Úttekt á fjármálum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
- Menntasprotinn Atlas Primer stefnir út til Bandaríkjanna.
- Fjallað er um vaxtahækkun Seðlabankans og viðbrögð seðlabankastjóra við þingsályktunartillögu þingmanna minnihlutans um mótvægisaðgerðir.
- Fjallað um arðbæran rekstur Gömlu laugarinnar við Flúðir.
- Nýr markaðsstjóri SaltPay ræðir hvernig hann hyggst nálgast starfið og áherslur félagsins á vinnumarkaðnum.
- Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem veltir vöngum yfir eftirliti Neytendastofu með verðmerkingum verslana.
- Óðins sem skrifar um rekstrarumhverfi fjölmiðla, Ríkisútvarpið og nýjan forstjóra Landspítalans.
- Fjölmiðlarýnir fjallar um stjórnarkjör í Eflingu og meint valdaójafnvægi hagsmunaafla.