Áfrýjunardómstóll í Hollandi hefur losað hollenska olíurisann Shell úr fjötrum þess að þurfa að draga úr útblæstri sínum í samræmi við dómsniðurstöðu frá árinu 2021.
Dómstóll í Haag í Hollandi skikkaði Shell árið 2021 til að draga útblástur félagsins á gróðurhúsalofttegundum saman um 45% fyrir árið 2030, miðað við útblástur ársins 2019.
Sjö umhverfisverndarsamtök, meðal annars Friends of the Earth og Milieudefensie, auk 17 þúsund einstaklinga, stefndu Shell árið 2019.
Shell hafði fyrir dómsniðurstöðuna sagst stefna að því að verða kolefnishlutlaust árið 2050.
Áfrýjunardómstóllinn sem kvað upp dómsniðurstöðu sína í dag sagði að þó að Shell þyrfti enn að draga úr útblæstri sínum þá gæti dómstóllinn ekki ákveðið hlutfallið, en The Wall Street Journal greinir frá.
„Það er ekki nægjanlegur samhljómur í loftlagsvísindum um nákvæma prósentutölu sem hægt er að skikka einstakt fyrirtæki til að fylgja,“ segir í dóminum.
Í dómnum segir einnig að Shell sé nú þegar að draga úr kolefnisspori sínu.
Umhverfisverndarsamtökin Milieudefensie segja dómsniðurstöðuna sláandi bakslag en segja niðurstöðuna þó sýna að það sé þrýstingur á fyrirtæki til að draga úr kolefnisspori sínu þó svo loftlagsmarkmiðin séu ekki lagalega bindandi.