Jeff Sussman, faggiltur fjármálagreinandi (CFA) og hagfræðingur með umfangsmikla reynslu af innleiðingu Evróputilskipana, segist eiga afar erfitt með að sjá fyrir sér að íslensk fyrirtæki muni geta uppfyllt þær strangari og umfangsmeiri kröfur um ófjárhagslega upplýsingagjöf ársreikninga sem boðaðar eru í nýrri Evróputilskipun sem leidd verður í lög á næsta ári.
Nýju reglurnar byggja á grunni eldri reglna frá 2004, sem loks voru að fullu leiddar í lög hér árið 2020, en íslenskum fyrirtækjum hefur gengið erfiðlega að fara eftir, „svo það er nokkuð ljóst að það verður á brattann að sækja fyrir fyrirtæki sem eru ekki enn komin með þær gömlu á hreint að uppfylla þessar.“
Sum fyrirtæki virðist þó ekki hafa látið það stöðva sig og séu jafnvel þegar farin að gefa út sjálfbærniskýrslur, sem kveðið er á um í komandi tilskipun, en flestar eigi þær því miður fátt skylt við það sem krafist verði af nýju reglunum, og minni hann raunar þess í stað helst á markaðsefni.
„Þessi fyrirtæki ættu kannski að byrja á því að uppfylla kröfur núgildandi laga fyrst – þær eru ekki bara upp á punt heldur er góð ástæða fyrir þeim.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út fimmtudaginn 30. mars.