Stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna hefur samþykkt ályktun þar sem fullum stuðningi er lýst við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra. Í ályktuninni kemur fram að Þórey Vilhjálmsdóttir, sem er formaður sambandsins, hafi ekki haft aðkomu að ályktuninni en hún er einnig aðstoðarmaður innanríkisráðherra.

Þá kemur einnig fram að stjórnin harmi brot Gísla Freys Valdórssonar og afleiðingar þess, en tekur fram að gott sé að sannleikurinn sé nú loksins kominn í ljós. „Hanna Birna gat ekki fyrr en á þriðjudag í þessari viku gefið skýringar á upplýsingalekanum en hefur á undanförnum mánuðum samt sem áður ekki vikið sér undan að gefa öll þau svör sem hún mögulega gat," segir í ályktuninni.

Að lokum telur sambandið að samfélagið og flokkurinn þurfi á „sterkum stjórnmálamönnum af báðum kynjum að halda." Því vonist LS til að innanríkisráðherra starfi áfram og óskar henni velfarnaðar í sínum störfum.

Hér má lesa ályktunina í heild sinni:

Til fjölmiðla.

Stjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna hefur samþykkt meðfylgjandi ályktun. Rétt er að taka fram að ályktunin var samþykkt án aðkomu formanns LS, Þóreyjar Vilhjálmsdóttur, en hún er aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem ályktunin fjallar um.

Reykjavík, 13. nóvember 2014

Stjórn Landsambands sjálfstæðiskvenna (LS) lýsir yfir fullum stuðningi við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra, og hennar störf á vettvangi flokks og ríkisstjórnar.

Á sama tíma og stjórnin harmar brot fyrrverandi aðstoðarmanns hennar og afleiðingar þess, þá er gott að sannleikurinn sé nú loks kominn í ljós. Hanna Birna gat ekki fyrr en á þriðjudag í þessari viku gefið skýringar á upplýsingalekanum en hefur á undanförnum mánuðum samt sem áður ekki vikið sér undan að gefa öll þau svör sem hún mögulega gat.

Samfélagið og flokkurinn þurfa á sterkum stjórnmálamönnum af báðum kynjum að halda. Það er ósk stjórnar LS að Hanna Birna starfi ótrauð áfram að mikilvægum verkefnum á vettvangi ríkisstjórnar og innan Sjálfstæðisflokksins og óskar henni velfarnaðar.