Mikill skortur er uppi á túrtöppum í Bandaríkjunum. Notendur tíðarvara hafa deilt erfiðleikum við að finna tíðarvörur í verslunum á samfélagsmiðlum og hafa þar að auki tekið eftir miklum verðhækkunum á vörunum. BBC greinir frá.

Skortinn má rekja til hnökra í framleiðslukeðjunni þá helst vegna skorts á starfsfólki í verksmiðjum vegna heimsfaraldursins. Þar að auki hefur stríðið í Úkraínu leitt til verðhækkana á þeim hráefnum sem eru notuð í framleiðslu á hreinlætisvörum. Áhyggjur eru um að fleiri nauðsynjavörur gætu orðið fyrir truflunum í birgarkeðjum.

Helstu framleiðendur tíðarvara í Bandaríkjunum hafa heitið því að framleiða meira af tíðarvörum til þess að mæta skorti í landinu. Talsmaður Edgewell Personal Care, sem framleiðir Playtex og o.b. túrtappa, segir stöðuna vera vegna hnökra í framleiðslukeðjunni vegna faraldursins en að unnið væri að uppbyggingu birgðarhalds. Talsmaður Procter & Gamble, sem framleiðir Tampax túrtappa, sagði einnig að um tímabundið ástand væri að ræða.