Samhliða þessum hallarekstri hafa skuldir bandaríska ríkisins stóraukist. Hlutfall skulda af landsframleiðslu er nú komið í 122% og vex hratt. Bandaríkin eru þar með komin í flokk með Japan og Ítalíu þegar kemur að opinberum skuldum. Skuldirnar aukast enn fremur hratt. Fjárlagahallinn var ríflega fimm prósent í fyrra og fátt bendir til þess að skuldasöfnuninni linni í fyrirsjáanlegri framtíð.

Það er svo ekkert nýtt að bandaríska ríkið sé rekið með halla. Fjárlagahallinn hefur verið að meðaltali 3% af landsframleiðslu undanfarin fimmtíu ár og aðeins er að finna eitt tímabil þar sem afgangur var á fjárlögum en það var um fjögurra ára skeið á tíunda áratugnum þegar Bill Clinton var forseti og repúblikanar fóru með völdin í þinginu.

En eðlisbreyting hefur orðið á skuldasöfnun alríkisins. Skuldir ríkisins hafa áður vaxið hratt eins og á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar en viðvarandi hagvöxtur grynnkaði þær statt og stöðugt áratugina eftir ófriðinn. Skuldahlutfallið stóð í 35% af landsframleiðslu áður en fjárlagakreppan skall á árið 2008 og var komið í 80% áður en heimsfaraldurinn skall á.

Kostnaður vegna faraldursins og skattalækkana sem Donald Trump kom í gegn í valdatíð sinni hefur komið hlutfallinu í 122% eins og fyrr segir. Ef ekki verða gerðar
neinar breytingar á skattheimtu og útgjöldum mun skuldahlutfallið fara í 200% á næstu áratugum.

Margir sérfræðingar telja að bandaríska hagkerfið standi ekki undir svo mikilli skuldsetningu. Hinn þekkti stærðfræðingur og áhugamaður um fiðurfénað, Nassim Nicholas Taleb, sagði á dögunum að hallarekstur bandaríska ríkisins væri stjórnlaus og til kraftaverks þyrfti að koma til að afstýra greiðslufalli og meiri háttar fjármálakreppu.

Hvítur svanur en ekki svartur

Taleb lét þessi orð falla á ráðstefnu sem vogunarsjóðurinn Universa Investment hélt í síðustu viku. Sjóðurinn sérhæfir sig í fjárfestingum sem tengjast svokallaðri halaáhættu (e. tail risk) sem nær til þróunar sem er að mestu ófyrirsjáanleg og hefur mikil og djúpstæð áhrif á markaði.

Taleb er þekktur fyrir skrif sín um slíkar áhættur og hefur í því samhengi líkt þeim við svarta svani. Það vekur athygli að hann grípur ekki til þeirrar samlíkingar þegar kemur að skuldastöðu bandaríska ríkisins en hann segir áhættuna sem þetta ástand skapar vera fullkomlega fyrirsjáanlega.

Þetta er hluti af lengri fréttaskýringu sem birtist í Viðskiptablaðinu 7. febrúar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.