Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,07% milli mánaða í september og að ársverðbólga standi í stað og verði áfram 7,7%. Í greiningu bankans segir að útsölulok hafi mest áhrif á hækkun milli mánaða í september.

Bankinn gerir hins vegar ráð fyrir að árstíðabundin lækkun á flugfargjöldum til útlanda komi til með að draga spána niður næstu mánuði og endi í 6,6% í desember.

„Flugfargjöld hafa síðustu mánuði fylgt mjög svipaðri þróun og fyrir ári síðan og við gerum ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram. Við spáum því að húsnæðisverð lækki á milli mánaða í september en að áhrif vaxtabreytinga verði til hækkunar,“ segir í greiningu.

Landsbankinn spáir því að reiknuð húsaleiga hækki um 0,3%, þar sem íbúðaverð lækkar um 0,3% en áhrif vaxta verði til hækkunar um 0,6%.

Samkvæmt verðathugun okkar gerir bankinn einnig ráð fyrir því að bensín og díslolía hækki um 1,9% á milli mánaða í vísitölu neysluverðs.

„Á fyrstu fimm mánuðum ársins var að meðaltali 23% dýrara að fljúga til útlanda en á sama tímabili í fyrra. Frá því í júní hefur þessi munur dregist verulega saman. Í júlí og ágúst var einungis 2% dýrara að fljúga til útlanda en í sömu mánuðum í fyrra. Við gerum ráð fyrir því að þessi þróun haldi áfram næstu mánuði og að flugfargjöld til útlanda lækki um 18,7% í september.“

Gangi spá Landsbankans eftir í haust má búast við 7,1% verðbólgu í október, 6,7% í nóvember og 6,6% í desember.