Greiningardeild Íslandsbanka gerir ráð fyrir því að verðbólgan muni ekki taka miklum breytingum út árið eftir að hafa hjaðnað hratt síðustu mánuði. Þetta kemur fram nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka í morgun.
Verðbólgan mældist 10,2% í febrúar á þessu ári en 7,7% í ágústmánuði en að mati greiningardeildarinnar eru helstu ástæður þess rólegri íbúðamarkaður og minni innflutt verðbólga.
„Við spáum því að verðbólga verði á svipuðum slóðum út árið en taki að hjaðna hratt í byrjun nýs árs,“ segir í þjóðhagsspánni.
Bankinn gerir einnig ráð fyrir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé á lokasprettinum og spáð að því ljúki með 9,5% stýrivöxtum fyrir lok ársins.
Greiningardeildin gerir jafnframt ráð fyrir 2,2% hagvexti á árinu, sem er talsvert hægari vöxtur en verið hefur.
Munar þar mestu um hægari vöxt einkaneyslu og fjárfestingar. Útflutningsvöxtur vegur hvað þyngst í hagvexti ársins en hlutur innlendrar eftirspurnar verður samkvæmt spánni umtalsvert minni en síðustu tvö ár.
„Meðal helstu óvissuþátta á alþjóðavísu er hvort, og þá hvernig, aukin spenna á milli ýmissa helstu landa heims muni brjótast fram á komandi tíð. Þá gæti verðbólga erlendis reynst þrálátari en vænst er. Innanlands ráði niðurstaða kjaraviðræðna miklu um framhaldið ásamt því hversu mikil endanleg áhrif stóraukins peningalegs aðhalds verða á heimili og fyrirtæki.“
Greiningardeildin bendir á að krónan hafi að mestu verið í styrkingarfasa það sem af er þessu ári en í spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 5% sterkari í lok spátímans en hún var að jafnaði í ágúst síðastliðnum.
„Slík gengisstyrking, ásamt hraðari hækkun launa og meiri verðbólgu hérlendis en í viðskiptalöndum okkar, verður til þess að raungengi krónu hækkar töluvert. Fara því líkur á frekari styrkingu krónu þverrandi eftir því sem tíminn líður og líkur á gengislækkun aukast jafnt og þétt ef laun og verðlag hérlendis hækka áfram umtalsvert hraðar en erlendis,“ segir í spánni.
Helstu tölur úr þjóðhagsspá Íslandsbanka:
- Hagvöxtur – Spáð er 2,2% hagvexti árið 2023, 2,6% 2024 og 3,0% 2025.
- Utanríkisviðskipti – Útflutningur eykst um 6,8% í ár og innflutningur um 4,9%.
- Verðbólga – 8,7% verðbólga að meðaltali 2023, 5,4% árið 2024 og 3,7% árið 2025.
- Vinnumarkaður – 3,2% meðaltalsatvinnuleysi í ár, 3,8% 2024 og 4,0% 2025.
- Vextir – Stýrivextir ná líklega hámarki í 9,5% fyrir árslok og verða við 6,0% undir lok spátímans.
- Krónan – Krónan verði um 5% sterkari við lok spátímans en hún var í ágúst 2023.