Greiningar­deild Ís­lands­banka gerir ráð fyrir því að verð­bólgan muni ekki taka miklum breytingum út árið eftir að hafa hjaðnað hratt síðustu mánuði. Þetta kemur fram nýrri þjóð­hags­spá Ís­lands­banka í morgun.

Verð­bólgan mældist 10,2% í febrúar á þessu ári en 7,7% í ágúst­mánuði en að mati greiningar­deildarinnar eru helstu á­stæður þess ró­legri í­búða­markaður og minni inn­flutt verð­bólga.

„Við spáum því að verð­bólga verði á svipuðum slóðum út árið en taki að hjaðna hratt í byrjun nýs árs,“ segir í þjóð­hags­spánni.

Bankinn gerir einnig ráð fyrir að vaxta­hækkunar­ferli Seðla­bankans sé á loka­sprettinum og spáð að því ljúki með 9,5% stýri­vöxtum fyrir lok ársins.

Greiningardeildin gerir jafn­framt ráð fyrir 2,2% hag­vexti á árinu, sem er tals­vert hægari vöxtur en verið hefur.

Munar þar mestu um hægari vöxt einka­neyslu og fjár­festingar. Út­flutnings­vöxtur vegur hvað þyngst í hag­vexti ársins en hlutur inn­lendrar eftir­spurnar verður sam­kvæmt spánni um­tals­vert minni en síðustu tvö ár.

„Meðal helstu ó­vissu­þátta á al­þjóða­vísu er hvort, og þá hvernig, aukin spenna á milli ýmissa helstu landa heims muni brjótast fram á komandi tíð. Þá gæti verð­bólga er­lendis reynst þrá­látari en vænst er. Innan­lands ráði niður­staða kjara­við­ræðna miklu um fram­haldið á­samt því hversu mikil endan­leg á­hrif stór­aukins peninga­legs að­halds verða á heimili og fyrir­tæki.“

Greiningar­deildin bendir á að krónan hafi að mestu verið í styrkingarfasa það sem af er þessu ári en í spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 5% sterkari í lok spá­tímans en hún var að jafnaði í ágúst síðast­liðnum.

„Slík gengis­styrking, á­samt hraðari hækkun launa og meiri verð­bólgu hér­lendis en í við­skipta­löndum okkar, verður til þess að raun­gengi krónu hækkar tölu­vert. Fara því líkur á frekari styrkingu krónu þverrandi eftir því sem tíminn líður og líkur á gengis­lækkun aukast jafnt og þétt ef laun og verð­lag hér­lendis hækka á­fram um­tals­vert hraðar en er­lendis,“ segir í spánni.

Helstu tölur úr þjóð­hags­spá Ís­lands­banka:

  • Hag­vöxtur – Spáð er 2,2% hag­vexti árið 2023, 2,6% 2024 og 3,0% 2025.
  • Utan­ríkis­við­skipti – Út­flutningur eykst um 6,8% í ár og inn­flutningur um 4,9%.
  • Verð­bólga – 8,7% verð­bólga að meðal­tali 2023, 5,4% árið 2024 og 3,7% árið 2025.
  • Vinnu­markaður – 3,2% meðal­tals­at­vinnu­leysi í ár, 3,8% 2024 og 4,0% 2025.
  • Vextir – Stýri­vextir ná lík­lega há­marki í 9,5% fyrir árs­lok og verða við 6,0% undir lok spá­tímans.
  • Krónan – Krónan verði um 5% sterkari við lok spá­tímans en hún var í ágúst 2023.