Samkvæmt spá Íslandsbanka mun ársverðbólga aukast í desember en hjaðna fljótt á næsta ári. Samkvæmt spá greiningardeildar bankans verður verðbólga um 7% í marsmánuði á næsta ári en til þess að það gerist þarf íbúðamarkaður að vera rólegur og gengi krónu stöðugra en var fram eftir hausti.
„Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,9% í desember frá fyrri mánuði. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólga aukast úr 8,0% í 8,3%. Við teljum þó að ársverðbólgan fari ekki hærra að sinni og taki að hjaðna nokkuð hratt í byrjun næsta árs. Það helsta sem vegur til hækkunar í desembermánuði er árstíðarbundin hækkun flugfargjalda auk þess sem íbúðaverð heldur áfram að hækka,“ segir í spá bankans.
Hagstofa Íslands mun birta vísitölu neysluverðs þann 21. desember nk.
Hækkun flugfargjalda hefur áhrif
Það helsta sem vegur til hækkunar í desembermánuði að mati bankans er hækkun flugfargjalda „eins og venja er í desember.“
„Samkvæmt spá okkar hækka flugfargjöld til útlanda um 20,5% (0,41% áhrif á VNV) þar sem um árstíðarbundna hækkun er að ræða í aðdraganda jóla. Það sem vegur lítillega á móti hækkuninni er eldsneytisverð sem lækkar um 0,9% (-0,03% áhrif á VNV) en verð á Brent tunnu hefur lækkað nokkuð hratt undanfarið á heimsmarkaði.“
Þá eru ýmsir liðir sem hækka í verði milli mánaða og má ætla að veiking krónunnar hafi þar sitt að segja. Greiningardeildin nefnir helst matar- og drykkjarvörur sem hækka í verði um 0,4% (0,06% áhrif á VNV) samkvæmt spá bankans. Húsgögn og heimilisbúnaður hækkar um 0,7% (0,04% áhrif á VNV).
Það sem vegur næstþyngst í hækkun vísitölunnar í mánuðinum er verðhækkun á íbúðum að mati bankans.
„Þó að íbúðamarkaður sé talsvert heilbrigðari en hann hefur verið er þó enn talsvert líf á honum. Íbúðaverð tók að hækka á nýjan leik á haustmánuðum eftir rólegt sumar og á síðustu þremur mánuðum hefur markaðsverð íbúðarhúsnæðis, sem er mæling Hagstofunnar á íbúðaverði, hækkað um ríflega 3%.“
Útsölur, íbúðaverð og krónan
Í greiningu bankans segir að ársverðbólga hafi hreyfst á þröngu bili frá því um mitt ár. Verðbólga jókst lítillega frá fyrri mánuði í nóvember og mældist 8,0%.
„Ef þessi spá okkar fyrir desembermánuð rætist mun ársverðbólga aukast í 8,3% sem er hæsta mælingin frá því í júní. Við teljum þó að verðbólga hjaðni nokkuð hratt í byrjun næsta árs.“
Í bráðabirgðaspá bankans er gert ráð fyrir:
- Janúar 0,4% - ársverðbólga mælist 7,8%: Þar vegast á útsölur og hækkun opinberra gjalda.
- Febrúar 0,8% - ársverðbólga mælist 7,2%: Útsölulok helstu áhrif hækkunar á milli mánaða.
- Mars 0,5%-ársverðbólga mælist 7,1%: Útsölulok teygjast fram í mars.
„Eins og sést mun ársverðbólga hjaðna nokkuð hratt þrátt fyrir áframhaldandi hækkun vísitölunnar. Ástæða þess er að stórir hækkunarmánuðir fyrri hluta þessa árs detta út úr 12 mánaða mælingunni. Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði 6,3% að jafnaði árið 2024 og 3,9% árið 2025,“ segir í greiningu bankans.
Óvissan í spánni er talsverð en til skemmri tíma er helsti óvissuþátturinn verðþróun á íbúðamarkaði ásamt gengi krónunnar.