Hlutabréf Ölgerðarinnar voru tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar í morgun. Félagið birti lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Ölgerðar. Sjóðurinn Horn III, sem er í stýringu hjá Landsbréfum, er áfram stærsti hluthafi Ölgerðarinnar og fer nú með 17,6%. Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar er í kringum 10 krónur á hlut í fyrstu viðskiptum, sem er nálægt útboðsgenginu í tilboðsbók B, þ.e. fyrir tilboð yfir 20 milljónum, í nýafstöðnu útboði félagsins. Gengi félagsins er um 11% hærra en í tilbóðsbók A, sem náði til boða undir 20 milljónum.
Tæplega 30% hlutur í Ölgerðinni var seldur í hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar félagsins. Fjórföld eftirspurn var eftir hlutafé Ölgerðarinnar og söluandvirðið nam 7,9 milljörðum króna. Hluthafar Ölgerðarinnar seldu allir hlutfallslega jafn mikið af bréfum sínum í félaginu í útboðinu. Tilkynnt var eftir útboðið að hluthafar Ölgerðarinnar væru orðnir nærri sjö þúsund talsins.
Sjá einnig: 109 ára vaxtarfyrirtæki
Athygli vekur að fjárfestingarfélagið Sindrandi, sem er í eigu Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, eigenda Fagkaupa, er nú orðið næst stærsti hluthafi Ölgerðarinnar. Svo virðist sem félagið hafi keypt 3,4% hlut í Ölgerðinni í útboðinu og fer nú með 13,3% hlut samanborið við 14,1% fyrir útboðið. Sindrandi hafði samþykkt að selja 4,2% hlut í útboðinu.