Þó að hlutur Rússland og Úkraínu af útflutningi Íslands sé ekki verulegur kann stríðsástandið í Úkraínu að hafa umtalsverð bein áhrif á ákveðna geira og fyrirtæki. Fyrir fáeinum árum komu rússnesk fyrirtæki á hvötum þar sem útgerðum bauðst viðbótarkvóti gegn smíði nýrra fiskiskipa. Í kjölfarið myndaðist mikil eftirspurn eftir smíði nýrra og betri fiskiskipa og stóraukinni fjárfestingu í tæknibúnaði á sjó og í landi. Fyrir vikið skapaðist tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki á þessum markaði.
Meðal fyrirtækja sem hafa sótt inn á rússneska markaðinn er KAPP, sem selur og þjónustar kæli-, frysti- og vinnslubúnað. Freyr Friðriksson, eigandi KAPP, segir að félagið gæti orðið af nokkur hundruð milljónum króna í tekjum í ár vegna viðskiptaþvingana á hendur Rússum.
Hlutdeild rússneskra viðskiptavina af tekjum félagsins er um 20%-30% að sögn Freys. Til að setja þetta í samhengi var heildarvelta félagsins um 1,7 milljarðar króna árið 2020.
„Við erum búin að byggja upp vörumerki á þessu svæði frá árinu 2014 og svo hrynur markaðurinn núna á einni nóttu. Það verður erfitt að ná þessum viðskiptum til baka, en það þarf að hugsa í lausnum núna, þar á meðal að snúa sér að öðrum mörkuðum. Það er þó flóknara en að segja það og getur tekið langan tíma,“ segir Freyr.
Ítarlega er fjallað um margvísleg áhrif stríðsins á íslenskt efnahagslíf í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .