Villa Certosa, strandhús Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu á Sardiníu er til sölu fyrir 500 milljónir evra, eða 75 milljarða króna.
Fimm börn Berlusconi, sem lést í júní síðastliðnum 86 ára að aldri, hafa ákveðið að selja eignina. Sér fasteignamiðlunin Dils í Mílanó um söluna að sögn heimildarmanna Financial Times.
Berlusconi keypti 110 hektara landareignina á Costa Smeralda á norðausturströnd Sardiníu seint á níunda áratugnum og endurbyggði húsin.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/131428.width-1160.jpg)
Í villunni, sem er í göngufjarlægð við Miðjarðarhafið, eru 68 herbergi, margar sundlaugar, tennisvellir, garðar á stærð við 80 fótboltavelli og hringleikahús.
Davíð Oddson, Tony Blair, George Bush og Vladimír Pútín er meðal þeirra sem dvöldu í sumarvillunni.
Villa Certosa hefur að sögn farið á markað tvisvar áður, árin 2010 og 2015. Berlusconi neitaði þó alltaf sögusögnum um hugsanlega sölu.
Ítalskir fjölmiðlar greindu frá því að Berlusconi hafnaði 500 milljóna evra tilboði árið 2015 frá konungsfjölskyldunni í Sádi-Arabíu.