Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í aðeins 1,5 milljarða króna viðskiptum í dag. Það er heldur minna en hefur verið að undanförnu en til samanburðar var að meðaltali 4,2 milljarða velta á dag á íslenska hlutabréfamarkaðnum í síðasta mánuði.
Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem lækkuðu um eitt prósent í nærri 300 milljóna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 606 krónum á hlut.
Þar á eftir kom Skel fjárfestingafélag í 216 milljóna veltu en gengi félagsins féll um 2,5% og stendur nú í 15,4 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Skeljar hefur ekki verið lægra síðan um miðjan marsmánuð.
Iceland Seafood hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,2% en þó aðeins í 40 milljóna veltu. Gengi Iceland Seafood stendur nú í 9,5 krónum á hlut sem er um 36% lægra en í upphafi árs. Hlutabréf Icelandair, Eimskips og Kviku banka hækkuðu einnig um meira en 1% í verði í dag.