Eftir fimm ára starf er Margrét Sanders, fráfarandi formaður SVÞ, ánægð með afnám vörugjalda og flestra tolla, sem aukið hafi samkeppnishæfni íslenskrar verslunar og opnað markaðinn fyrir landnámi stórra erlendra keðja. Nú þurfi að lækka launatengd gjöld og auka sveigjanleika í vinnutíma starfsfólks, það bæti fjölskyldulíf og auki á jafnrétti. Hún segir verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur ekki geta einblínt á Ísland sem eyland með sínum sérlausnum, heldur verði landið að læra af öðrum þjóðum.
Margrét nefnir þörf á auknum sveigjanleika í vinnutíma verslunarfólks, en Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram tillögur um að dagvinnutímabil í öllum kjarasamningum verði 11 klukkustundir og innan þess geti starfsfólk uppfyllt mánaðarlega vinnuskyldu með mislöngum vinnudögum ef það kýs svo, eða með því að vinna lengur suma daga en taka frí aðra daga að hluta eða öllu leyti.
„Aukinn sveigjanleiki er ákall samtímans, einkum ungs fólks á vinnumarkaði því þannig getur starfsfólk samhæft miklu betur en nú er vinnu og einkalíf. Aukinn sveigjanleiki stuðlar augljóslega að jafnari fjölskylduábyrgð foreldra og þar með að jafnrétti kynja. En það þarf að breyta ákvæðum í kjarasamningum til að ýta undir sveigjanleikann, og eru þau atriði til umfjöllunar í þessum kjarasamningum,“ segir Margrét sem segir að slíkur sveigjanleiki eigin vinnutíma verði val starfsmannsins og alls ekki þannig að vinnuveitandinn geti hringlað með vinnutíma einstakra starfsmanna.
„Vinnutími starfsmanna er og verður ráðningarsamningsbundin kjör þeirra og vinnuveitendur geta ekki ákveðið hann einhliða, því hann byggist á samkomulagi. Samhliða slíkum breytingum á kjarasamningum hefur SA boðið hækkun á launatöxtum kjarasamninga. Við höfum verið að auka sveigjanleikann í íslensku samfélagi undanfarin ár, áður fyrr voru stimpilklukkur algengar, og allir þurftu að mæta klukkan 8, ekki mínútu seinna, síðan var farið að opna á það víða að fólk mæti á milli 8 og 9, en núna er tæknin orðin það mikil að fólk á að geta valið vinnutíma sinn, líka í verslun.“
Margrét tekur undir með Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar, í Viðskiptablaðinu á dögunum að verslunarfólk njóti ekki sama sveigjanleika í starfi og skrifstofufólk. „Þetta ætti að vera þannig að starfsmaðurinn geti bara ákveðið hvenær hann ætli að vinna í mánuðinum fyrirfram, til dæmis ef það er frí í skóla hjá barninu, og sleppa þeim degi í vinnu, þó að heildarmyndin yfir mánuðinn sé full vinna og fyrirtækin fái starfsmenn inn í þá tíma sem þurfi að vera viðvera,“ segir Margrét og nefnir í þessu samhengi tilraunaverkefni sem Festi hafi sett upp. Konurnar lægri en skólakrakkarnir
„Þetta átti algerlega að vera á forsendum starfsmanna og þannig að trúnaðarmenn þeirra og VR áttu að geta farið í gegnum hvernig þetta gengi með fyrirtækinu. Auk þess mátti segja þessu upp hvenær sem er, svo þetta var algerlega sett upp þannig að starfsmennirnir áttu að ráða þessu öllu, en VR kom í veg fyrir að málið næði fram að ganga. Dagvinnulaunin hefðu á móti verið hærri, þannig að starfsfólkið fengi meira í umslagið sitt fyrir styttri tíma.
Staðreyndin er nefnilega sú að í verslununum eru þeir sem eru á hæstu laununum ekki konurnar sem oft standa þar allan daginn í fullri vinnu, heldur krakkarnir sem eru í skólum og koma kannski milli 5 og 7 og svo aftur annan hvern laugardag. Þá er ég ekki bara að tala um tímakaupið heldur heildarlaunin. Svarið við því af hverju grunnlaun eru lægri á Íslandi en annars staðar er af því að við erum að borga svo mikla yfirvinnu, allt upp í 80% af launum er yfirvinna.“
Ef horft er á ársreikninga fyrirtækja og öll launatengdu gjöldin, þá er launakostnaður fyrirtækja ekkert lægri hér á landi en annars staðar að sögn Margrétar, en í öðrum löndum sé mun meiri sveigjanleiki.
„Í Danmörku er dagvinnukaup greitt á laugardögum, ekki yfirvinnukaup eins og hér tíðkast, og yfirvinnuálag og vaktaálag er miklu lægra. Á móti lægri álögum eru greidd hærri grunnlaun í Danmörku. Við ættum að leyfa fólki að prófa aukinn sveigjanleika og gefa því færi á að bakka út úr því ef það er ósátt. Það er óásættanlegt að kjarasamningar hindri fólk í því að samræma vinnu og einkalíf. Auðvitað er ákveðinn tími sólarhringsins og vikunnar verðmætari fólki en annar og yfirvinnuálög og vaktaálög á þeim tímum endurspegla það,“ segir Margrét og nefnir einnig framleiðnina sem hefur löngum mælst minni hér á landi en annars staðar.
„Ef kaffitímar væru ekki greiddir hér á landi, ólíkt því að vera utan vinnutímaskilgreiningar eins og annars staðar, væri framleiðnin hér á landi í fremstu röð í heiminum. Með niðurfellingu formlegra kaffitíma gæti fólk valið að hætta hálftíma fyrr á hverjum degi eða um hádegi á föstudegi. Staðreyndin er sú að laun á Íslandi eru meðal þeirra hæstu í heiminum og ríki sem við berum okkur saman við, eins og til dæmis Svíþjóð, eru nánast með enga yfirvinnu þótt launin séu miklu lægri en á Íslandi. Þau eru líka mun lægri þegar tekið er tillit til hærra verðlags á Íslandi. Það væri nærri lagi að minnka yfirvinnuna en greiða hærri dagvinnulaun og ná þannig upp meiri framleiðni. Það er alveg galið að maður sem vinni 10 til 12 tíma á dag að jafnaði hafi sömu afköst og sá sem vinnur 7 til 8 tíma á dag. “
Að sögn Margrétar er aðalatriðið að Íslendingar læri af því sem vel er gert erlendis. „Það gilda nákvæmlega sömu lögmál á Íslandi og annars staðar. Minn draumur er að við Íslendingar, hvort sem það sé verkalýðshreyfingin eða atvinnurekendur, hugsum ekki allt út frá því að við séum svo sérstök hér á Íslandi að við verðum að gera hlutina á okkar hátt. Það er ástæða fyrir því að aðrir hafa náð betri árangri en við á sumum sviðum, og við eigum að horfa þangað.“
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .