Seðlabanki Svíþjóðar tilkynnti í morgun um að hann hefði ákveðið að lækka stýrivexti í þriðja sinn í ár. Peningastefnunefnd bankans gaf jafnframt til kynna að hún gæti lækkað vexti enn frekar á síðustu tveimur vaxtaákvörðunum sínum í ár.

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína um 25 punkta, eða úr 3,5% í 3,25%. Vaxtalækkunin var í samræmi við spár hagfræðinga sem tóku þátt í könnun Wall Street Journal.

„Ef horfur fyrir verðbólgu og efnahagsumsvif haldast óbreyttar, þá gætu stýriextir bankans lækkað aftur á síðustu tveimur vaxtaákvörðunum peningastefnunefndarinnar í ár,“ segir í yfirlýsingu sem nefndin birti í morgun.

„Lækkun upp á 0,5 prósentustig er mögulega á öðrum þessum fundum. Ennfremur gera spár bankans ráð fyrir einum eða tveimur frekari vaxtalækkunum á fyrir árshelmingi 2025.“

Í umfjöllun WSJ segir að tónninn í nefndinni hafi tekið miklum breytingum á skömmum tíma. Í yfirlýsingu nefndarinnar í ágúst sagðist hún ekki telja þörf á 50 punkta lækkunum.

Bent er þó á að Seðlabanki Bandaríkjanna réðst í millitíðinni í 50 punkta vaxtalækkun í síðustu viku. Þá lækkaði Seðlabanki Evrópu einnig stýrivexti sína fyrr í þessum mánuði.