Netöryggisfyrirtækið Syndis hefur hafið sókn á sænska markaðinn en sænskir fjölmiðlar hafa meðal annars fjallað um málið í vikunni.
Syndis réð á síðasta ári sænska netöryggissérfræðinginn og hakkarann David Jacoby til að stýra sókn fyrirtækisins í Svíþjóð en hann hefur yfir 25 ára reynslu í netöryggismálum.
David er þekktur í Svíþjóð en nálgun hans á netöryggi hefur meðal annars verið sýnd í sænska sjónvarpsþættinum HACKAD. Þar voru raunverulegar árásir framkvæmdar í beinni útsendingu. Hann er einnig vel þekktur fyrirlesari og tekur reglulega þátt í ráðstefnum um allan heim.
„Við erum að styrkja stöðu okkar á nýjum mörkuðum og auka enn frekar vöxt fyrirtækisins. Sókn inn á sænska markaðinn er fyrsta skrefið í þessari útrás okkar erlendis. Þekking og þjónusta Syndis er af hæstu gæðum á alþjóðavísu og mætir vel vaxandi þörf margra sænskra fyrirtækja. Við sjáum því gott tækifæri til að styðja sænsk fyrirtæki í að bæta sitt netöryggi,“ segir Anton Már Egilsson, forstjóri Syndis.