Marel hagnaðist um 9,1 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi, eða sem nemur 1,35 milljörðum króna miðað við gengið í lok mars. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri félagsins. Til samanburðar hagnaðist félagið um 21,7 milljónir evra á sama fjórðungi í fyrra.
Tekjur félagsins námu 447,4 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi, um 66,3 milljarða króna. Tekjuvöxturinn var 20,4% milli ára, þar af 13,0% vegna ytri vaxtar. Þá var EBIT framlegð félagsins 9,0% samanborið við 8,4% á sama tíma í fyrra.
Mótteknar pantanir námu 362,6 milljónum evra samanborið við 421,7 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Stóð pantanabókin í 590,4 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs og dróst saman um 6% milli ára.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir í uppgjörinu að lægri pantanir megi rekja til óvissu í efnahagsmálum, hækkandi vaxtastigs og kostnaðar viðskiptavina. Gerir hann ráð fyrir að markaðsaðstæður fari batnandi á komandi misserum.
„Í þessum aðstæðum tekur fjármögnun verkefna mislangan tíma sem hefur áhrif á það hvenær þau verða að staðfestum pöntunum sem getur leitt til sveiflna í afkomu á milli ársfjórðunga þegar líður á árið. Pípan af nýjum verkefnum er áfram sterk og gert er ráð fyrir að markaðsaðstæður fari batnandi á komandi ársfjórðungum. Undirliggjandi spurn eftir sjálfvirkni og róbótatækni og stafrænum lausnum er enn mikil hjá viðskiptavinum okkar sem standa frammi fyrir áframhaldandi skort á vinnuafli og hækkandi vaxta- og aðfangakostnaði.“
Gengi bréfa Marel hækkaði um 4,55% í 466 milljóna króna viðskiptum dagsins.
Í uppgjöri félagsins segir að horfur þess til lengri tíma séu óbreyttar. Félagið stefni að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026, sem byggi á markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.
„Marel stefnir að 14-16% EBIT framlegð fyrir lok árs 2023 í stað 16% áður, í ljósi umróts í alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Marel stefnir jafnframt að um 38-40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði í árslok 2023."