Áfrýjunarnefnd samkeppnismála tekur ekki fyrir kæru Símans vegna bráðabirgðarákvörðunar Samkeppniseftirlitsins (SKE) um að skylda Símann til þess að selja Nova áskrift að ensku úrvaldeildinni í heildsölu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

„Sá aðili sem hafði sýningarrétt að sama efni nánast óslitið í tvo áratugi bar enga slíka skyldu þrátt fyrir að hafa óumdeilanlega verið með umtalsverða yfirburði yfir alla keppinauta sína á markaðnum. Voru skilaboð Samkeppniseftirlitsins að almenn heildsöluskylda á þann aðila væri ekki æskileg, þrátt fyrir stöðuna,“ segir í tilkynningunni og er þar vísað til Sýnar, en enski boltinn var sýndur á Stöð 2 Sport frá 2007 til 2019.

Forsaga málsins er sú að í sumar ákvað SKE til bráðabirgða að skikka Símann til að semja þegar í stað við Nova um heildsölu og dreifingu á Símanum Sport eftir að hafa synjað Nova um slíkan samning, sem SKE taldi sennilegt brot á samkeppnislögum. Fram að því höfðu bæði Sýn og Nova boðið upp á Símann Sport í stakri áskrift með því að kaupa það sjálf í heildsölu af Símanum og áframselja allt frá því Síminn tryggði sér sýningarrétt á efninu árið 2019.

Í tilkynningunni segist Síminn ennfremur harma að málið fái ekki efnislega meðferð. Það sé „ámælisverður galli í samkeppnislögum“ að aðilar á markaði eigi þess ekki kost að bera bráðabirgðaákvarðanir sem hafa raunveruleg áhrif undir æðra sett stjórnvald.

„Samkeppniseftirlitið hefur sett fram mjög misvísandi og ruglandi leiðbeiningar í tengslum við efnisrétt á sl. árum, þar sem þversagnakenndum fullyrðingum er haldið á lofti sem gerir markaðsaðilanum nánast ómögulegt að vita hvað er rétt eða rangt í þeim efnum. Það er mikilvægt að það ríki traust um beitingu samkeppnislaga og að hún byggi á gagnsæjum og skýrum efnisatriðum þar sem aðilar á markaði geti treyst því að leyst sé úr málum með sambærilegum hætti. Ekki hvað síst er síðan mikilvægt að aðilar sem íhlutun samkeppnisyfirvalda beinist að geti leitað réttar síns.“

Sé bráðabirgðaákvörðunin lögð til grundvallar megi ætla að sýningar frá hverjum og einum íþróttaviðburði sé sérstakur markaður í skilningi samkeppnislaga. Af því leiði að sá sem heldur á sýningaréttinum sé þar með með 100% markaðshlutdeild og á honum hvíli heildsöluskylda til sinna samkeppnisaðila. Við þær aðstæður sé vandséð af hverju fyrirtæki ætti að kosta miklu til og bjóða í slíka sýningarrétti á annað borð.