Skiplagður þjófnaður í matvöruverslunum er stórt vandamál líkt og fjallað er um í Viðskiptablaðinu. Áætlað er að vörum fyrir 2,5 til 3,8 milljarða króna sé stolið á ári úr dagvöruverslunum.

Þekkt er að þjófar steli helst að stela snyrtivörum, ilmvötnum, rakspírum og rakvélablöðum. Einnig er algengt að fæðubótaefnum eins og dýrum vítamínum og þess háttar sé stolið.

Færri vita hins vegar að töluvert algengt er að verið sé að stela dýrri matvöru, eins og til dæmis nautalundum, lambafillet og humri. Dæmi eru um að matvöruverslanir hérlendis hafi sett þjófavörn á dýra matvöru líkt og algengt er víða erlendis. Hérlendis hafa sumar matvöruverslanir einnig gripið til þess ráðs að hafa dýrt kjöt einungis í kælum inni á lager. Sumstaðar erlendis eru dýrar matvörur einfaldlega hafðar í læstum glerskápum.

„Það er alveg ljóst að stór hluti af þeim verðmætum sem fer forgörðum með þessum hætti á sér rætur í einhverskonar skipulagðri brotastarfsemi," segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. „Fólk af erlendum uppruna er sent til landsins beinlínis í þeim tilgangi að stela. Gögn sýna okkur að um 80% af tjóninu er vegna skipulagðrar brotastarfsemi."

„Við höfum bent stjórnvöldum á að við séum eyland og höfum góða aðstöðu til að fylgjast með farþegalistum flugvéla," segir Andrés. „Við ættum því að hafa betri möguleika en mörg önnur lönd að stemma stigu við þessu. Við munum aldrei uppræta þetta með öllu. Þess má geta að þegar covid-faraldurinn gekk yfir, og erfiðara var að ferðast á milli landa, þá snarminnkaði þjófnaðurinn. Það styður það sem ég var að segja að fólk er sent hingað til lands gagngert til þess að stela.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.