Í gær var tilkynnt um mikla hækkun fasteignamats víða um landið. Breytingin hefur að óbreyttu í för með sér þriggja milljarða króna hækkun á fasteignasköttum af atvinnuhúsnæði, samkvæmt útreikningum Félags atvinnurekenda (FA). Samtökin kalla eftir að sveitarfélög landsins bregðist við hækkuninni með lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkaði um 10,2% á landinu öllu, um 9,6% á höfuðborgarsvæðinu og 11,5% á landsbyggðinni. Að óbreyttu þýðir þetta samsvarandi skattahækkun á fyrirtækin.
„Þrátt fyrir að sum sveitarfélög hafi lækkað álagningarprósentu, hækkuðu fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði um 70% frá 2015, þegar núverandi aðferð við fasteignamat var fyrst beitt, og fram til síðasta árs,“ segir í frétt FA. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hafa hækkað úr tæplega 17 milljörðum króna á ári í 28,8 milljarða á milli áranna 2015-2021.
Verði ekki gerðar breytingar á skattprósentunni fyrir næsta ár munu tæpir þrír milljarðar bætast við skattbyrði fyrirtækja. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verða í því tilfelli um 31,7 milljarðar.
Skora á sveitarfélögin að bregðast við
Stjórn FA sendi sveitarfélögum landsins í gær áskorun um að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði til að mæta hækkunum á matinu. FA segir sveitarstjórnarmenn ekki geta firrt sig ábyrgð og látið „sjálfkrafa“ hækkanir sköttum renna umræðulaust í sjóði sveitarfélaganna.
„Að mati FA verður ekki við þessa þróun unað. Mörg fyrirtæki eru að rétta úr kútnum eftir kórónuveirukreppuna. Gífurlegar hækkanir á aðföngum gera fjölda fyrirtækja erfitt fyrir og þau þurfa að leita allra leiða til að velta þeim ekki út í verðlag. Engu að síður er verðbólgan sú hæsta í mörg ár. Framundan eru afar erfiðar kjaraviðræður. Þriggja milljarða skattahækkun sveitarfélaganna er ekki það sem atvinnulífið þarf á að halda við þessar aðstæður.“
Félag atvinnurekenda kallar einnig eftir að sveitarfélögin taki upp viðræður við ríkisstjórnina um breytingar á „þessu fráleita kerfi“ þar sem skattgreiðslur af atvinnuhúsnæði eru beintengdar við þróun fasteignamats. Í núverandi umhverfi taki fasteignaskattar sífelldum hækkunum án nokkurs tillits til gengis í atvinnulífinu að öðru leyti.
Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði 2015-2022, mynd tekin frá FA.