Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt drög að frumvarpi til laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjóflutningar verði felldir undir ETS-kerfið frá 1. janúar 2024, ásamt öðrum breytingum sem þurfa að taka gildi um næstu áramót.

„Útvíkkun ETS-kerfisins til sjóflutninga mun fela í sér aukinn kostnað fyrir skipafyrirtæki sem munu frá 2025 þurfa að kaupa losunarheimildir á markaði til að bæta upp fyrir losun sína frá sjóflutningum,“ segir í mati ráðuneytisins á áhrifum frumvarpsins.

„Siglingaleiðir til og fá Íslandi eru langar og því má leiða að því líkum að kostnaður geti haft áhrif á möguleika til að mæta samkeppni.“

Ráðuneytið segir í skjalinu að Ísland þurfi eins og önnur ríki heims að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir er hornsteinn loftslagsstefnu ESB svo þátttaka Íslands í kerfinu er mikilvæg til að draga megi úr losun frá starfsemi sem alla jafna reynist erfitt að draga úr losun frá.“

Frumvarpið felur í sér innleiðingu þriggja EES-gerða sem gert er ráð fyrir að verði samþykktar af sameiginlegu EES-nefndinni í desember nk. Þar eru lagðar til breytingar á ETS-kerfinu vegna herts markmiðs ESB um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. ESB gerir ráð fyrir 62% samdrætti í losun frá þeim geirum sem falla undir ETS-kerfið.

„Til að því markmiði verði náð verður losunarheimildum í ETS-kerfinu fækkað hraðar, dregið úr endurgjaldslausri úthlutun losunarheimilda, starfsemi sjóflutninga verður felld undir kerfið og nýtt hliðstætt ETS kerfið verður sett á fót, svokallað ETS2-kerfi sem mun ná utan um losun frá byggingum, vegasamgöngum og smærri iðnaði.“

Gerðirnar munu ekki taka gildi fyrr en löggjöf til innleiðingar tekur gildi í Íslandi, Liechtenstein og Noregi.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að umfjöllun um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið) verði í sérlögum með það að markmiði að auka skýrleika. Auk frumvarps þessa er gert ráð fyrir framlagningu frumvarps um ETS2-kerfið á vorþingi.

Ríkissjóðir fái um 5-7 milljarða

Ráðuneytið segir að útvíkkun ETS-kerfisins muni hafa í för með sér fleiri uppboðsheimildir til uppboðs á sameiginlegum uppboðsvettvangi ESB „sem að öllum líkindum mun fela í sér auknar tekjur fyrir ríkissjóð“.

Endanlegur fjöldi uppboðsheimilda til handa Íslandi liggur ekki fyrir en samkvæmt bráðabirgðaútreikningum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs árið 2027 geti verið á bilinu 5 til 7 milljarðar.