Fyrsta háhraðalest Indónesíu var afhjúpuð við hátíðlega athöfn á mánudag af sjálfum forseta landsins, Joko Widodo, en heildarkostnaður verkefnisins nam 7,3 milljörðum Bandaríkjadala eða ígildi rétt um þúsund milljarða íslenskra króna.

Lestin – sem tengir höfuðborgina Jakarta við hina efnahagslega mikilvægu Bandung-borg – ber heitið Whoosh og var fjármögnuð af kínverska ríkinu sem hluti af belti og braut-innviðaátaki þarlendra yfirvalda.

Forsetinn hefur sett uppbyggingu samgönguinnviða í forgang til að draga úr álagi á gatnakerfið, hvar miklar og alvarlegar umferðarteppur eru daglegt brauð. Upphafleg verklok járnbrautarlestarinnar voru áætluð 2019 en deilur um landeignir, heimsfaraldurinn og kostnaður sem fór um 170 milljarða króna umfram áætlun hafa tafið framgang verksins.