Málm­leitar­fé­lagið Amaroq Minerals, sem heldur á víð­tækum rann­sóknar- og vinnslu­heimildum á Græn­landi, sendi fyrstu niður­stöðu til­rauna­borana sumarsins til Kaup­hallarinnar eftir að fé­lagið var skráð á aðal­markað í síðasta mánuði.

Niður­stöðurnar sýna hæsta gull­magn/gull­styrk úr megin­æð Nalunaq í sögu fé­lagsins.

„Gull­styrkur upp á 182g/t Au [grömm í hverju tonni] yfir 0,69 metra mældist í sýna­töku úr megin­æð Nalunaq, sem stækkar fyrsta vinnslu­svæðið í efsta hluta námunnar í fjall­lendinu (e. Mountain Block) þar sem fyrir­hugað er að hefja námu­starf­semi árið 2024,“ segir í Kaup­hallar­til­kynningu.

Þá upp­götvaði fé­lagið einnig nýja gull­æð sem er 75 metra fyrir ofan megin­æðina, þar sem gull­styrkur mælist hærri en nokkru sinni áður, eða 256 g/t Au, sem Amaroq segir að eykur til muna mögu­legt vinnslu­svæði í Nalunaq

„Staðfesta að gullsvæðið er víðfeðmara“

„Þetta er hæsti gull­styrkur sem hefur fengist úr borunum í Nalunaq frá stofnun Amaroq Minerals árið 2017. Þessar niður­stöður auka þróunar­mögu­leika okkar til muna og stað­festa að gull­svæðið nær lengra og er víð­feðmara en áður var talið og nú­verandi á­ætlanir okkar um námu­gröft miðast við,“ segir Eldur Ólafsson, for­stjóri Amaroq í til­kynningunni.

Fé­lagið hefur lokið borunum á sex bor­holum, alls 1.731,43 m af tveimur pöllum í fjöllunum.

Í til­kynningu segir að allar sex bor­holurnar fóru í gegnum megin­æðina eins og spáð hafði verið, og fjórar stað­festu veru­lega fram­lengingu á hágæða­jarð­efnum á Mountain Block svæðinu, sem verður megin­við­fangs­efni námu­vinnslu fyrir­tækisins sem fyrir­hugað er að hefjist árið 2024.

„Borunar­á­ætlunin á Mountain Block-svæðinu í ár, þar sem boranir fara fram á tveimur stöðum í mikilli hæð, er til marks um skil­virkt sam­starf milli tækni­fólks Amaroq og verk­taka á vegum fyrir­tækisins, sem gerir okkur kleift að ná metnaðar­fullum mark­miðum okkar innan tíma­rammans sem við settum okkur fyrir tíma­bilið.

Þetta færir okkur enn nær innra mark­miði okkar um að auka um­svif í nýt-ingu jarð­efna við Nalunaq upp í 1 milljón troyesúnsa og jafn­vel meira,“ segir Eldur í tilkynningunni.

Að mati fyrir­tækisins veita niður­stöðurnar ó­metan­legar upp­lýsingar um eðli og sam­fellu megin­æðarinnar sem skipta sköpum fyrir hönnun og skipu­lagningu námu­graftar.

„Dróna­myndir í há­skerpu gefa mikil­væg ný gögn“

„Rann­sóknir sumarsins sýndu fram á nýja æð í berginu fyrir ofan megin­æðina með gull­magni upp á 256 g/t Au yfir 0,5 metra. Æðin hefur verið nefnd „75-æðin“ og virðist hún svipað þykk og megin­æðin, sem eykur mögu­leikana á að hægt sé að vinna hana með sömu inn­viðum og nú­verandi megin­æð,“ segir í til­kynningu.

Amaroq væntir enn fremur niður­staðna úr tveimur öðrum sýna­tökum úr 75-æðinni sem rann­sóknar­stofan er að greina um þessar mundir.

„Nýjar dróna­myndir í há­skerpu gefa mikil­væg ný gögn um upp­byggingu megin­æðarinnar og 75 æðarinnar sem munu gagnast fyrir frekari boranir á árinu 2024,“ segir í til­kynningu.

Frekari jarð­vegs­kannanir eru fyrir­hugaðar á fjórða árs­fjórðungi 2023 með það fyrir augum að greina nýtt há­gæða­námu­vinnslu­svæði í Target Block sem er stað­sett við hlið Mountain Block svæðisins.

„Niður­stöður borana stað­festa enn frekar gildi Doleri­te Dyke-berg­ganga­módelsins til að af­marka betur þau svæði þar sem gull­magnið er mest.“

„Könnunar­starf í Nalunaq í ár var með sér­stakri á­herslu á Mountain Block svæðið þar sem fyrir­hugað er að hefja námu­starf­semi árið 2024. Nú beinum við kröftum okkar að því að þróa frekari námu­starf­semi í Nalunaq með jarð­vegs­könnun og fyrir­huguðum borunum á væn­legum stöðum á Target Block svæðinu.

Niður­stöðurnar hafa auk þess sýnt fram á mögu­legan massa málm­grýtis í slút­veggnum, í „75-æðinni“ svo­kallaðri, sem eykur enn mögu­leika á arð-semi og vinnslu­mögu­leikum í Nalunaq,“ segir James Gil­bert­son, framkvæmda­stjóri rann­sókna hjá Amaroq.