Málmleitarfélagið Amaroq Minerals, sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænlandi, sendi fyrstu niðurstöðu tilraunaborana sumarsins til Kauphallarinnar eftir að félagið var skráð á aðalmarkað í síðasta mánuði.
Niðurstöðurnar sýna hæsta gullmagn/gullstyrk úr meginæð Nalunaq í sögu félagsins.
„Gullstyrkur upp á 182g/t Au [grömm í hverju tonni] yfir 0,69 metra mældist í sýnatöku úr meginæð Nalunaq, sem stækkar fyrsta vinnslusvæðið í efsta hluta námunnar í fjalllendinu (e. Mountain Block) þar sem fyrirhugað er að hefja námustarfsemi árið 2024,“ segir í Kauphallartilkynningu.
Þá uppgötvaði félagið einnig nýja gullæð sem er 75 metra fyrir ofan meginæðina, þar sem gullstyrkur mælist hærri en nokkru sinni áður, eða 256 g/t Au, sem Amaroq segir að eykur til muna mögulegt vinnslusvæði í Nalunaq
„Staðfesta að gullsvæðið er víðfeðmara“
„Þetta er hæsti gullstyrkur sem hefur fengist úr borunum í Nalunaq frá stofnun Amaroq Minerals árið 2017. Þessar niðurstöður auka þróunarmöguleika okkar til muna og staðfesta að gullsvæðið nær lengra og er víðfeðmara en áður var talið og núverandi áætlanir okkar um námugröft miðast við,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq í tilkynningunni.
Félagið hefur lokið borunum á sex borholum, alls 1.731,43 m af tveimur pöllum í fjöllunum.
Í tilkynningu segir að allar sex borholurnar fóru í gegnum meginæðina eins og spáð hafði verið, og fjórar staðfestu verulega framlengingu á hágæðajarðefnum á Mountain Block svæðinu, sem verður meginviðfangsefni námuvinnslu fyrirtækisins sem fyrirhugað er að hefjist árið 2024.
„Borunaráætlunin á Mountain Block-svæðinu í ár, þar sem boranir fara fram á tveimur stöðum í mikilli hæð, er til marks um skilvirkt samstarf milli tæknifólks Amaroq og verktaka á vegum fyrirtækisins, sem gerir okkur kleift að ná metnaðarfullum markmiðum okkar innan tímarammans sem við settum okkur fyrir tímabilið.
Þetta færir okkur enn nær innra markmiði okkar um að auka umsvif í nýt-ingu jarðefna við Nalunaq upp í 1 milljón troyesúnsa og jafnvel meira,“ segir Eldur í tilkynningunni.
Að mati fyrirtækisins veita niðurstöðurnar ómetanlegar upplýsingar um eðli og samfellu meginæðarinnar sem skipta sköpum fyrir hönnun og skipulagningu námugraftar.
„Drónamyndir í háskerpu gefa mikilvæg ný gögn“
„Rannsóknir sumarsins sýndu fram á nýja æð í berginu fyrir ofan meginæðina með gullmagni upp á 256 g/t Au yfir 0,5 metra. Æðin hefur verið nefnd „75-æðin“ og virðist hún svipað þykk og meginæðin, sem eykur möguleikana á að hægt sé að vinna hana með sömu innviðum og núverandi meginæð,“ segir í tilkynningu.
Amaroq væntir enn fremur niðurstaðna úr tveimur öðrum sýnatökum úr 75-æðinni sem rannsóknarstofan er að greina um þessar mundir.
„Nýjar drónamyndir í háskerpu gefa mikilvæg ný gögn um uppbyggingu meginæðarinnar og 75 æðarinnar sem munu gagnast fyrir frekari boranir á árinu 2024,“ segir í tilkynningu.
Frekari jarðvegskannanir eru fyrirhugaðar á fjórða ársfjórðungi 2023 með það fyrir augum að greina nýtt hágæðanámuvinnslusvæði í Target Block sem er staðsett við hlið Mountain Block svæðisins.
„Niðurstöður borana staðfesta enn frekar gildi Dolerite Dyke-berggangamódelsins til að afmarka betur þau svæði þar sem gullmagnið er mest.“
„Könnunarstarf í Nalunaq í ár var með sérstakri áherslu á Mountain Block svæðið þar sem fyrirhugað er að hefja námustarfsemi árið 2024. Nú beinum við kröftum okkar að því að þróa frekari námustarfsemi í Nalunaq með jarðvegskönnun og fyrirhuguðum borunum á vænlegum stöðum á Target Block svæðinu.
Niðurstöðurnar hafa auk þess sýnt fram á mögulegan massa málmgrýtis í slútveggnum, í „75-æðinni“ svokallaðri, sem eykur enn möguleika á arð-semi og vinnslumöguleikum í Nalunaq,“ segir James Gilbertson, framkvæmdastjóri rannsókna hjá Amaroq.