Eins afgerandi og þær hljóma segir Kári S Friðriksson hjá Greiningardeild Arion banka þó varasamt að lesa of mikið í tölur Seðlabankans um söluframboð á íbúðamarkaði.
„Þetta er eitthvað skrýtið. Þeir sem ég hef rætt þetta við eru á því að tölur HMS séu líklega nær lagi. Þar er enda mikil sérhæfð þekking á gögnum á þessu sviði og mikil vinna lögð í vinnslu þeirra. Ég tek allavega meira mark á þeim, og hugsa að framboðið sé bara svipað núna og það var í byrjun faraldurs; í það minnsta ekki tvöfalt á við þá.“
Tölur HMS – sem Kári vísar til – eru fengnar af fasteignavef Vísis, en eru ekki opinberlega aðgengilegar. Þær sýndu þó um 3.700 íbúðir til sölu samkvæmt síðustu mánaðarskýrslu stofnunarinnar sem birt var rétt fyrir jól. Þótt það séu enn fleiri en í tölum mbl.is voru tölur HMS svipaðar og þær eru í dag fyrir landtöku farsóttarinnar, og í skýrslunni segir meðal annars:
„Merki eru um að meira jafnvægi sé að komast á fasteignamarkaðinn. Fleiri íbúðir hafa verið teknar úr sölu síðustu þrjá mánuði en síðasta ár þar á undan.“
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gærmorgun.