Tölvumiðlun sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum hefur samið við Opin kerfi um alrekstur á sínum upplýsingakerfum. Alrekstrarþjónustan felur í sér að Opin kerfi hýsir nú öll miðlæg upplýsingakerfi Tölvumiðlunar sem og viðskiptavina þeirra og annast útstöðvaþjónustu fyrir starfsmenn.
„Með því að úthýsa þessum þætti starfseminnar til Opinna kerfa teljum við okkur vera enn betur í stakk búin til að einbeita okkur að kjarnastarfsemi okkar sem er að smíða, þróa og afhenda öflugar hugbúnaðarlausnir,“ segir Brynjar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Tölvumiðlunar.
Á sama tíma munu Opin kerfi innleiða H3 launa- og mannauðskerfi til að auka yfirsýn stjórnenda, en því er ætlað að aðstoða þá við utanumhald og þróun á mannauði fyrirtækisins.
„Það er okkur mikil ánægja og heiður að eitt öflugasta hugbúnaðarhús landsins hafi valið Opin kerfi sem sinn samstarfsaðila til að reka upplýsingakerfi sín. Hlutverk okkar verður að styðja fyrirtækið til frekari vaxtar með hnökralausum rekstri og góðri þjónustu,“ segir Gunnar Guðjónsson, forstjóri Opinna kerfa.