Leigubílafyrirtækið Uber hefur tilkynnt rekstrarhagnað á heimsvísu í fyrsta sinn en rúmlega 25 milljónir farþega notast nú við þjónustuna á hverjum degi.

Fyrirtækið hefur nýlega skilað uppgjöri sínu en samkvæmt því jókst hagnaður um 22% miðað við sama tímabil í fyrra.

Dara Khosrowshahi, forstjóri Uber, segist vilja stækka fyrirtækið enn frekar og auka þjónustu. Uber hefur fram til þessa umturnað leigubílaþjónustu á heimsvísu og segist vilja gera slíkt hið sama við ferðaþjónustu.

„Ferðalög eru mjög mikilvæg fyrir reksturinn okkar og við erum í því að sækja og skila farþegum. Þannig við fórum að spá hvort við gætum ekki fært okkur meira yfir í ferðaþjónustuna. Við viljum í rauninni byggja upp þjónustu sem er samkeppnishæf á ferðamarkaðnum,“ segir Dara.

Forstjórinn hefur viðamikla reynslu í ferðaþjónustu en áður en hann varð forstjóri Uber vann hann sem framkvæmdastjóri hjá netbókunarsíðunni Expedia.

Samkvæmt uppgjöri Uber hafa tekjur aukist um 14% en rekstrarkostnaður hefur aðeins hækkað um 2% og koma langflestar tekjur fyrirtækisins frá Bandaríkjunum og Kanada.