Bandaríska aksturs- og heimsendingarfyrirtækið Uber hefur verið sektað um 290 milljónir evra, 44,3 milljarða króna, af Persónuverndarstofnun Hollands (h. Autoriteit Persoonsgegevens).

Er Uber sektað fyrir að hafa fært persónuupplýsingar um evrópska bílstjóra á bandarískan netþjón (e. server). Voru þetta gögn eins og persónuskilríki, sem og upplýsingar um staðsetningar bílstjóranna.

Telur stofnun að með þessu hafi Uber brotið gegn evrópsku persónuverndarlöggjöfinni. Því eru forsvarsmenn Uber ósammála og hyggjast áfrýja þessari ákvörðun hollensku stofnunarinnar.

Sektin sem Uber fékk slagar hátt í sekt sem TikTok fékk í fyrra fyrir að hafa brotið gegn persónuverndarrétti barna. Var TikTok þá sektað um 345 milljónir evra eða sem nemur 53 milljörðum króna.