Umbúðamiðlun hefur gengið frá kaupum á hverfismótaframleiðslu Borgarplasts. Samhliða sölunni á hverfismótunum verður Formar stofnað, nýtt félag sem mun reka frauðverksmiðjuna og verður áfram í eigu Umbreytingar I, sjóðs í rekstri Alfa Framtaks. Tryggvi E Mathiesen verður framkvæmdastjóri Formar.

Alfa Framtak er rekstraraðili sérhæfðra sjóða, en fyrirtækið sérhæfir sig í fjárfestingum og stuðningi við stjórnendur, athafnafólk og fyrirtækjaeigendur. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu. Borgarplast var fyrsta fjárfesting Umbreytingar I, en fyrirtækið var keypt árið 2018.

„Það hefur verið ánægjulegt og lærdómsríkt að koma að uppbyggingu og þróun Borgarplasts síðustu 5 ár. Um er að ræða fyrstu fjárfestingu sjóðsins, en fyrirtækið hefur tekið stakkaskiptum undir forystu Matthíasar Matthíassonar, framkvæmdastjóra félagsins. Nýir eigendur hafa metnaðarfull markmið um að gera þetta rótgróna fyrirtæki enn betra,” segir Árni Jón Pálsson, fjárfestingarstjóri hjá Alfa Framtak.

Árni Jón segir að Formar, sem mun annast rekstur frauðframleiðslu félagsins í Reykjanesbæ, muni áfram sinna sínu hlutverki af kostgæfni í vaxandi eftirspurn á umbúðamarkaði fyrir ferskan fisk.

Umbúðamiðlun hefur frá árinu 1996 tryggt útgerðum og fiskmörkuðum fiskiker en í dag eru um 60.000 ker í leigukerfi félagsins.

„Saga Umbúðamiðlunar og Borgarplasts er samtvinnuð, en Borgarplast hefur annast framleiðslu á fiskikörum Umbúðamiðlunar alla tíð. Fjárfestingin mun gera okkur kleift að sinna okkar viðskiptavinum með enn áreiðanlegri hætti til framtíðar,“ segir Hilmar Arnafjörð Sigurðsson, framkvæmdastjóri Umbúðamiðlunar.