Uppsagnarhrinur bandaríska tæknifyrirtækja hafa mikið verið til umfjöllunar á undanförnum mánuðum. Nú hefur skýjaþjónustufyrirtækið Dropbox bæst í hópinn, en félagið hyggst segja upp 500 starfsmönnum á næstu misserum, eða um 16% af vinnuafli félagsins. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.
Drew Houston, forstjóri félagsins, sagði í bréfi til starfsmanna félagsins að niðursveifla í hagkerfinu hafi sett þrýsting á reksturinn og gert fjárfestingar félagsins ósjálfbærari.
Þá sagði forstjórinn að félagið yrði að bregðast við framþróun gervigreindar með því að breyta samsetningu vinnuaflsins og ráða inn fólk með þekkingu á gervigreind. Félagið ætli sér að vera fremst í flokki á sviði gervigreindar.
Dropbox áætlar viðbótargjöld á bilinu 37 til 42 milljónir dala vegna uppsagnanna, sem skýrist einkum af starfslokasamningum. Fyrirtækið áætlar að greiðslur vegna þessa fari í gegn á öðrum ársfjórðungi.
Gengi bréfa Dropbox hafa lækkað um tæp 3% í viðskiptum dagsins. Gengið hefur lækkað um 10,5% frá byrjun árs og stendur nú í 20,3 dölum á hlut.
Shared the difficult decision to reduce our workforce with the Dropbox team today. We’re committed to supporting those affected, and I’m deeply grateful for their contributions. https://t.co/Q1F8XaAof3
— Drew Houston (@drewhouston) April 27, 2023