Til þess að bregðist við stórtækum þjófnaði úr matvöruverslanir þurfa þær að hækka vöruverð. Árlega er vísitölufjölskyldan að greiða um 30 þúsund krónum meira fyrir vörur vegna þessarar óútskýrðu rýrnunar — þjófnaðar. Líkt og Viðskiptblaðið hefur fjallað um þá er áætlað að vörum fyrir 2,5 til 3,8 milljarða króna sé stolið úr matvöruverslunum á ári.

„Það hræðir mig sem borgara og sem hagsmunaaðila fyrir atvinnurekstur í landinu hvað réttarvörslukerfið er svaklega vanmáttugt við að taka á þessum málum. Tjónið sem af þessu hlýst endar að stórum hluta hjá almenningi því það leitar út í verðlagið.”

Andrés segir að lögreglunni og skattayfirvöldum hafi margsinnis verið bent á að ákveðnir veitingastaðir hérlendis séu að kaupa þýfi og selja. Skatturinn gæti sem dæmi athugað hvernig virðisaukaskattskil á aðföngum séu.

„Þetta vitum við með nokkuð öruggum hætti en það hefur aldrei verið brugðist við okkar ábendingum. Ekki svo ég viti til, allavega eru þessir veitingastaðir enn í rekstri.”

Þó langstærstu þjófnaðarmálin tengist skipulagðri brotastarfsemi eru fleiri sem stela. Það geta verið börn eða unglingar, sem og fullorðið fólk og starfsfólk verslana. Í þessum tilfellum er oftast verið að stela fyrir tiltölulega lágar fjárhæðir í hverju tilviki.

Þegar um er að ræða skipulagða brotastarfsemi þá er aftur á móti verið að stela  fyrir háar fjárhæðir í hverju tilviki, jafnvel vörum fyrir mörg hundruð þúsund krónur. Algengt er að þessir þjófar fylli bakpoka af vörum eða jafnvel innkaupakerru og laumist með hana út úr versluninni án þess að borga.

Samtök verslunar og þjónustu telja að 80% af tjóninu sé vegna skipulagðrar brotastarfsemi. Andrés segir að oftar en ekki sé þýfið flutt úr landi og jafnvel sé verið að stela upp í pantanir. Þessu tengt þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að hægt hafi verið að leggja inn pöntun á Facebook-síðu sem seldi þýfi. Hvort sú síða er enn til hefur ekki fengist staðfest. Það er hins vegar vel þekkt að verslun með þýfi, fíkniefni eða annan ólöglegan varning finnur sér oftar en ekki einhvern farveg á netinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.