Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,03% á milli júní og júlí og hefur nú hækkað um 7,6% á ársgrundvelli, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Verðbólgan dróst því saman um 1,3 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 8,9%.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,20% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 7,1% á síðastliðnum tólf mánuðum. Til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar án húsnæðis 7,9% í júní.
Í tilkynningu Hagstofunnar verð á fötum og skóm hafi lækkað um 8,7% á milli mánaða en lækkunin er rakin til sumarútsala. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, svokölluð reiknuð húsaleiga, lækkaði um 0,7% og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 13,9%.
Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans spáðu báðar að verðbólgan myndi hjaðna úr 8,9% niður í 7,8-7,9%. Greining Íslandsbanka átti von á að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,2% í júlí og að verðbólgan yrði því 7,8%. Hagfræðideild Landsbankans spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,24% og að ársverðbólgan yrði 7,9%.
Í kjölfar þess að bankarnir gáfu út verðbólguspá fyrir júlímánuð birti HMS nýjar tölur fyrir vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem lækkaði um 1,1% á milli mánaða. Spár bankanna tveggja gerðu ráð fyrir að reiknaða húsaleigan myndi hækka á milli mánaða.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um 1,25 prósentur þann 24. maí og eru meginvextir bankans nú 8,75%. Nefndin varaði við að hún myndi líklega hækka vexti enn frekar, m.a. þar sem verðbólguvæntingar til lengri tíma séu vel yfir markmiði. Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er þann 23. ágúst.