Allar líkur eru á því að verðbólgan muni hjaðna enn meira en spár gerðu ráð fyrir í júlímánuði, eftir að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,1% í síðasta mánuði.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir lækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hafa komið sér að óvart en bankinn spáði þó hægari hækkun íbúðaverðs í verðbólguspá júlímánaðar.
Hann bendir á að þrátt fyrir að vísitala neysluverðs tekur tillit til íbúðaverðs á landinu öllu sé fylgni milli mælingar HMS og Hagstofunnar að aukast.
„Ef við sjáum sambærilega þróun í mælingunni á föstudaginn, þegar hagstofan birtir vísitölu neysluverðs, þá eru líkur á að verðbólgan mælist eitthvað minni en við gerðum ráð fyrir,“ segir Jón Bjarki.
Verðbólgan fari undir 7,8%
Íslandsbanki spáði því í byrjun mánaðar að ársverðbólga myndi lækka úr 8,9% í 7,8% júlímánuði. Í þeirri spá er gert ráð fyrir 0,2% hækkun á vísitölu neysluverðs milli mánaða.
Mæling Hagstofunnar byggir á þriggja mánaða meðaltali en samkvæmt Íslandsbanka var mikið líf á íbúðamarkaði í marsmánuði. Nú dettur sá mánuður út.
Íslandsbanki geri ráð fyrir því að reiknaða húsaleigan myndi hækka um 0,9% og hafa 0,17% áhrif á vísitölu neysluverðs þar sem markaðsverð íbúðarhúsnæðis myndi hækka um 0,25% og vaxtaþáttur vegur til 0,65% hækkunar.
Lækkun íbúðaverðs gæti valdið því að mælingin verði hóflegri og verðbólgan hjaðni meira í júlí en áætlað var segir Jón Bjarki en bankinn spáði engu að síður talsverði lækkun.
„Verðbólgan er líkleg til að lækka talsvert vegna þess að júlímælingin í fyrra ýtti upp verðbólgunni. Vísitalan var að hækka allverulega milli mánaða. Við gerum við ráð 0,2% hækkun milli mánaða í okkar og að verðbólgan sé að hjaðna niður fyrir 8 prósentin. Með hliðsjón af því, og að fylgnin þarna á milli hefur verið að aukast, þá eykur þetta líkurnar á að við förum aðeins neðar en þessi 7,8% sem við vorum að gera ráð fyrir,“ segir Jón Bjarki.