Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% á milli apríl og maí og hefur nú hækkað um 9,5% á ársgrundvelli, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Verðbólgan dróst því saman um 0,4 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 9,9%.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,14% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 8,4% á síðastliðnum tólf mánuðum. Til samanburðar mældist árshækkun vísitölunnar án húsnæðis 8,7% í apríl.
Í tilkynningu Hagstofunnar segir að verð á mat- og drykkjarvörum hafi hækkað um 0,8% á milli mánaða. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, svokölluð reiknuð húsaleiga, hækkaði um 1,3% en flugfargjöld til útlanda lækkuðu hins vegar um 7,0%.
Greiningardeildir bankanna spáðu báðar að verðbólgan myndi hjaðna úr 9,9% niður í 9,5-9,6%. Greining Íslandsbanka átti von á að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,4% og að verðbólgan yrði því 9,5%. Hagfræðideild Landsbankans spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,54% og að ársverðbólgan yrði 9,6%.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti um 1,25 prósenta stýrivaxtahækkun á miðvikudaginn og eru stýrivextir bankans nú 8,75%. Nefndin varaði jafnframt við að hún myndi líklega hækka vexti enn frekar, m.a. þar sem verðbólguvæntingar til lengri tíma séu vel yfir markmiði. Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er þann 23. ágúst.