Hagnaður Síldar­vinnslunnar nam 73,4 milljónum Banda­ríkja­dala á árinu 2023 sem sam­svarar ríf­lega 10 milljörðum króna á gengi dagsins.

Hagnaður á fjórða árs­fjórðungi nam 10,6 milljónum dala en fé­lagið sendi frá sér já­kvæða af­komu­við­vörun í byrjun febrúar þar sem á­ætlað var að EBITDA sam­stæðunnar myndi nema um 121 milljónum dala eða um 16,4 milljörðum króna.

Var það í nærri lagi en rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir nam 121,8 milljónum dala eða 16,5 milljörðum króna á gengi dagsins. Mun það vera hækkun úr 104,6 milljónum dala árið 2022.

Í árs­upp­gjöri segir að um sé að ræða eitt besta rekstrar­ár Síldar­vinnslunnar til þessa. Loðnu­ver­tíð var góð í upp­hafi árs. Veiðar á makríl gengu vel og veiðarnar fóru að mestu fram í ís­lenskri lög­sögu.

Síld­veiðar á haust­mánuðum gengu vel á meðan um­fang bol­fisk­starf­semi jókst með til­komu Vísis í sam­stæðuna.

Enn ríki þó ó­vissa með á­fram­haldandi bol­fisk­starf­semi í Grinda­vík í kjöl­far jarð­hræringa og eld­gosa á Reykja­nesi.

Fé­lagið styrkti sölu- og markaðs­starf sitt með fjár­festingu í sölu­fyrir­tækinu Ice Fresh Sea­food.

Um 88 milljarðar í eigið fé

Heildar­eignir sam­stæðunnar námu 1,1 milljarði Banda­ríkja­dala sem sam­svarar um 149 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins. Fasta­fjár­munir voru um 889 milljónir dala og veltu­fjár­munir 210 milljónir dala.

Eigið fé fé­lagsins var 644,5 milljónir dala sem er um 88 milljarðar króna. Eigin­fjár­hlut­fall var 58,6% í lok tíma­bilsins en það var 55,2% í lok árs 2022.

Heildar­skuldir og -skuld­bindingar fé­lagsins voru 454,4 milljónir dala og lækkuðu um 20,1 milljónir dala frá ára­mótum. Vaxta­berandi skuldir voru 304,7 milljónir dala í lok tíma­bilsins og lækkuðu um 21 milljónir dala frá ára­mótum.

„Við erum að loka einu besta rekstrar­ári í sögu fé­lagsins. Árið hefur verið um margt við­burða­ríkt og upp­bygging fé­lagsins heldur á­fram. Loðnu­ver­tíðin 2023 gekk vel og var mikið fram­leitt. Aukning afla­heimilda seint á ver­tíðinni skilaði met­fram­leiðslu loðnu­hrogna. Fram­leiðsla var tölu­vert um­fram eftir­spurn og fylgdu mikil verð­lækkun og birgða­söfnun í kjöl­farið. Heilt yfir gengu upp­sjávar­veiðar vel á árinu,” segir Gunn­þór Ingvars­son for­stjóri SVN.

Gunn­þór segir að makríl­veiðar Síldar­vinnslunnar fari að mestu fram innan ís­lenskrar lög­sögu sem sé já­kvætt fyrir Ís­lendinga.

Markaðs­að­stæður fyrir upp­sjávar­af­urðir voru góðar hjá fé­laginu og mikil eftir­spurn á mjöl- og lýsis­markaði.

„Um mitt ár var til­kynnt um kaup Síldar­vinnslunnar á 50% hlut í sölu­fyrir­tækinu Ice Fresh Sea­food ehf. en kaupin eru mikil­væg til að efla enn frekar sölu- og markaðs­hlið Síldar­vinnslunnar. Við sjáum aukin tæki­færi í því að ís­lensk sjávar­út­vegs­fé­lög snúi bökum saman þegar kemur að sölu- og markaðs­starfi er­lendis enda sam­keppni hörð á er­lendum mörkuðum og sam­keppnis­aðilar sterkir. Þar teljum við að slíkt sam­starf muni skila aukinni verð­mæta­sköpun.

Frá­bær árangur Síldar­vinnslunnar á árinu byggir á ára­tuga reynslu öflugs starfs­fólks á öllum víg­stöðvum, sem hefur lagt mikið á sig á árinu, sem og mark­vissum fjár­festingum síðustu ára,“ segir Gunn­þór.