Fjármálaráherra kynnti á dögunum áform um breytingar á tekjuskattslögum til að liða fyrir erlendri fjárfestingu, sérstaklega í nýsköpun. Af umsögunaraðilum skiluðu Samtök iðnaðarins (SI) skiluðu inn ítarlegustu umsögninni þar sem nefnd eru nokkur atriði sem samtökin telja mikilvægt að horft verði til við endurskoðun tekjuskattslaga.

Samtökin segja að ákvæði í tekjuskattslögum um nýtingu á yfirfæranlegu tapi gagnist ekki sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem skyldi þar sem tap má einungis nýta á 10 árum frá því að það myndaðist. Oft á tíðum séu sprotafyrirtæki í rannsókna- og þróunarfasa í 10 til 20 ár og verði því ekki arðbær fyrr en eftir að heimildin fyrnist.

Samtökin leggja til að stjórnvöld afnemi tímamörk um nýtingu á yfirfæranlegu tapi og samræmi þannig framkvæmdina við það sem gengur og gerist í nágrannaríkjum.

Séríslensk kvöð

SI segja nauðsynlegt að einfalda framkvæmd endurgreiðslna við nýtingu ákvæða tvísköttunarsamninga og samræma við framkvæmd nágrannaríkja Íslands.

Í því samhengi segja samtökin nauðsynlegt að lækka skattbyrði á arðgreiðslur erlendra skattskyldra aðila og jafnvel undanskilja skattskyldu á söluhagnað hlutabréfa, afleiðna og vaxtatekna, sem almennt bera 20% fjármagnstekjuskatt hér á landi, með nýtingu ákvæða í tvísköttunarsamningum.

„Þeir erlendu fjárfestar, sem þrátt fyrir framangreint, fjárfesta hér á landi og hafa skattalega heimilisfesti í ríkjum sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við, þurfa engu að síður að leggja út fyrir fullum skattgreiðslum og sækja svo um endurgreiðslu á því sem nemur lækkuðu skatthlutfalli í samræmi við viðkomandi tvísköttunarsamning. Þegar sótt er um endurgreiðsluna liggur ekki fyrir hvort eða hvenær hún fæst. Slíkt skapar óvissu og getur haft hamlandi áhrif á að fá erlent fjármagn til landsins þar sem um er að ræða kvöð sem virðist séríslensk.“

SI segja að heilt yfir þurfi að tryggja að skattlagning sé ekki mismunandi eftir tegund eða formi hinna erlendu fjárfesta. Ákvæði tvísköttunarsamninga nái til að mynda ekki til erlendra fjárfestingarsjóða.

Þeir séu í mörgum tilvikum ekki skattskyldir aðilar en gildissvið tvísköttunarsamninga nær eingöngu yfir skilgreinda skattaðila. Samningarnir sem Ísland er aðili að virki því ekki sem skyldi til að laða að erlent fjármagn til íslenskra nýsköpunarfyrirtækja.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um áform fjármálaráðherra sem birtist í Viðskiptablaði vikunnar.