Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingmannafrumvarp um að fella brott alls kyns handahófskennd aldurstakmörk úr lögum.
„Víða í lögum er að finna svokölluð aldursmörk, þ. e. skilyrði um að einstaklingur hafi náð ákveðnum aldri áður en hann getur notið ákveðinna réttinda, öðlast ákveðin leyfi o. s. frv. Þá er einnig að finna efri aldursmörk, þ. e. um hámarksaldur einstaklinga svo að þeir geti öðlast ákveðin leyfi eða réttindi,” segir í greinargerð en Berglind Ósk Guðmundsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Í stað þess að vera með aldurstakmörk á margra ára bili verður að miða öll aldursskilyrði við 18 ára aldur sem er sjálfræðis- og fjárræðisaldur.
„Flutningsmenn fá ekki séð hvaða rök standi til þess að löggjöf feli víða í sér handahófskennd aldursmörk og áskilji til að mynda á einum stað að einstaklingar verði að vera orðnir 25 ára til þess að fullnægja skilyrðum laga en á öðrum þyki rétt að miða við 20 ára aldur, í stað þess að einfaldlega sé miðað við sjálfræðisaldur í öllum tilvikum,“ segir í greinargerð.
Áfengiskaup, ættleiðingar, dómarar ofl.
Með frumvarpinu er einnig lagt til að aldurshámark laga verði fellt úr gildi þar sem það á við. Að baki þeirri tillögu liggur sú hugsun að ekki sé nauðsynlegt að takmarka réttindi við ákveðinn aldur heldur beri mun frekar að líta til annarra þátta ef nauðsynlegt þykir að afturkalla réttindi eða takmarka leyfisveitingar til eldra fólks, svo sem heilsu, færni og annarra atriða sem hægt er að meta á hlutlægan máta.
Meðal þess sem lagt er til eru breytingar á áfengislögum um að til þess að fá útgefið vínveitingaleyfi þurfi umsækjandi að vera orðinn 20 ára og ef umsækjandi er félag með ótakmarkaðri ábyrgð skulu eigendur og framkvæmdastjóri þess vera orðnir 20 ára.
„Lagt er til að ákvæðið verði fellt brott, enda sé ekki tilefni til að skilyrða útgáfu leyfis til smásölu áfengis við sérstakan aldur umfram sjálfræðisaldur. Þá sé ekki tilefni til að setja sérstakt aldursskilyrði fyrir eigendur og framkvæmdastjóra félags sem er umsækjandi leyfis til smásölu áfengis.“
Þá er einnig lagt til að áfengiskaupaaldurinn verði lækkaður úr 20 ára í 18 ára.
Í frumvarpinu eru einnig lagðar til alls kyns breytingar á aldursskilyrðum Hæstaréttar- og Landsréttardómara í samræmi við breytingar sem gerðar voru um héraðsdómara árið 2021. Þótt aldursskilyrði hafi verið fellt brott er ólíklegt að aðili sem er 18 ára gamall yrði metinn hæfur sem héraðsdómari, enda eru gerðar aðrar kröfur í lögunum um að viðkomandi hafi lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi.
Það sama á við um hæfi Hæstaréttar og Landsréttardómara og því óþarfi að hafa aldursskilyrði en dómarar þurfa að vera 35 ára eða eldri eins og staðan er núna.
Þá er lagt til breytingar á lögum um hreppstjóra um að engan megi skipa hreppstjóra nema þann sem náð hafi 21 árs aldri. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.
Einnig er lagt til breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem segir að eigandi innstæðu, sem nemur hærri fjárhæð en 30.000 kr., eigi þess kost að fá innstæðu sína greidda þegar hann hefur náð 26 ára aldri. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.
Kafarar geta ekki fengið útgefið skírteini sem heimilar kofun í atvinnuskyni fyrr en þeir eru 20 ára, lagt er til að því verði breytt.
Í dag má ekki skipa stefnuvott nema hann sé orðinn 25 ára, dómtúlkar þurfa að vera 20 ára, skírteini leiðsögu- og hafnsögumanna má einungis gefa út til þeirra sem eru á aldrinum 25 til 69 ára.
Einstaklingar þurfa að vera 25 ára til að ættleiða en mega með sérstöku leyfi ættleiða eftir 20 ára aldurinn. Skotvopnaleyfi miðast við 20 ára aldurinn og lögreglumenn mega ekki vera eldri en 65 ára.
Verði frumvarpið að lögum miðast allt þetta við 18 ára aldur og hæfni.