Donald Trump hefur tilkynnt að hann muni setja 100% toll á allar erlendar kvikmyndir og hefur gefið bandaríska viðskiptaráðuneytinu heimild til setja tollinn á þar sem kvikmyndaiðnaður Bandaríkjanna er, að hans sögn, að deyja mjög hröðum dauða.

Forsetinn skrifar á Truth Social að hann vilji að bíómyndir verði aftur framleiddar í Bandaríkjunum en á BBC er minnst á að hann líti á ívilnanir annarra þjóða til að laða kvikmyndagerðarmenn til þeirra landa sem ógn við þjóðaröryggi.

Howard Lutnick viðskiptaráðherra Bandaríkjanna hefur svarað tilkynningunni með því að segjast vera að „vinna í því“ en smáatriðin eru hins vegar óljós.

Í yfirlýsingu forsetans kom ekki fram hvort tollurinn myndi eiga líka við um bandarísk fyrirtæki sem framleiða myndir sínar erlendis. Kvikmyndir á borð við Deadpool & Wolverine, Wicked og Gladiator II voru til að mynda teknar upp utan Bandaríkjanna.

Þá er heldur ekki ljóst hvort tollarnir yrðu settir á kvikmyndir sem sýndar eru í kvikmyndahúsum eða kvikmyndir sem sýndar eru á streymisveitum.