Samfélagsmiðillinn X, sem hét áður Twitter, var metinn á 44 milljarða dala í nýlegum viðskiptum á eftirmarkaði, að því er Financial Times greinir frá. Virði X hefur því rétt hressilega úr kútnum en samfélagsmiðlafyrirtækið var metið á minna en 10 milljarða dala síðastliðið haust.
Ofangreint verðmat er talið geta hjálpað X við verðlagningu í fyrirhugaðri fjármögnun félagsins. X stefnir að því að sækja ríflega 2 milljarða dala í nýtt hlutafé sem yrði nýtt til að greiða niður meira en 1 milljarða dala af skuldum sem Elon Musk, aðaleigandi X, stofnaði til í tengslum við 44 milljarða dala kaup hans á Twitter árið 2022.
Frá því að Musk tók yfir X hefur hann dregið úr stýringu á efni (e. content moderation) í anda málfrelsis. Stór hópur auglýsenda ákvað að draga úr kaupum á auglýsingum á samfélagsmiðlinum vegna þessarar stefnu.
Í lok september síðastliðnum var greint frá því að fjárfestingarfélagið Fidelity Investments, sem er hluthafi í X, meti heildarvirði hlutafjár X á 9,4 milljarða dala.
„Stórlega aðlagaður“ EBITDA-hagnaður
Tekjur X hafa dregist saman frá kaupum Musk árið 2022. Félagið skilaði hins vegar 1,2 milljarða dala aðlagaðri EBITDA árið 2024, samkvæmt heimildarmönnum FT. Félagið skilaði svipuðum rekstrarhagnaði fyrir yfirtöku Musk.
Aðrir heimildarmenn viðskiptamiðilsins með þekkingu á núverandi fjárhagsstöðu X segja að merki séu um að hagræðingarátak Musk innan fyrirtækisins sé að virka og að tekjur félagsins séu á uppleið.
Enn annar heimildarmaður bætti hins vegar við að EBITDA-talan væri „stórlega aðlöguð“ (e. wildly adjusted).