Hornsteinninn í 4,2 milljarða króna stjórnvaldssekt Samkeppniseftirlitsins á Samskip er hið svokallaða „NR – samráð“ sem Samskip segir að sé tilbúningur eftirlitsins frá A til Ö.
Í andmælum Samskipa sem var skilað inn til eftirlitsins segir að stofnunin hafi hins vegar gert grundvallarmistök í ályktunum sínum.
Nafngiftin er fengin með því að búa til skammstöfun úr „tveimur ólíkum og alls ótengdum verkefnum“ að mati Samskipa. Annars vegar verkefnið „Nýtt upphaf“ hjá Eimskipum og verkefnið „Revised budget“ hjá Samskipum.
„Samkeppniseftirlitið slengir þessum tveimur verkefnum saman til að fá skammstöfunina á hið meinta samráð og tengir það síðan við fund forsvarsmanna félaganna tveggja í aðdraganda bankahrunsins sumarið 2008.“
Samskip bendir á augljósan galla í þessari ályktun SKE þar sem stofnunin eignar Gylfa Sigfússyni, fyrrverandi forstjóra Eimskips glærukynninguna „Nýtt upphaf.“
Verkefnið búið til áður en Gylfi tók við
„Við nánari skoðun á kynningunni má sjá að hún hefur verið búin til (e. „created“) 10. september 2007 af forstöðumanni hjá Eimskipi tæpum níu mánuðum áður en fundurinn 6. júní 2008 fór fram og áður en Gylfi Sigfússon tók við sem forstjóri. Þetta vekur sérstaka athygli Samskipa og virðist sem þessi staðreynd hafi á einhvern óskiljanlegan hátt farið alfarið fram hjá Samkeppniseftirlitinu.”
Samskip neitar því alfarið að Eimskip hafi afhent þeim glærukynninguna og segja að efni hennar hafi aldrei verið rætt við stjórnendur eða annað starfsfólk Samskipa.
„Engin vitneskja var um tilvist skjalsins innan Samskipa fyrr en eftir birtingu andmælaskjals Samkeppniseftirlitsins 2018,“ segir Samskip.
Kynningin fannst aldrei hjá Samskipum
Samkeppniseftirlitið fór í víðtækar húsleitir hjá Samskipum og Eimskipi árin 2013 og 2014 en stjórnendur Samskipa voru gagnrýndir fyrir að upplýsa ekki um tilvist skjals sem þeir segjast ekki hafa vitað um né fannst við leit.
„Þrátt fyrir að umrædd glærukynning hafi ekki fundist í gögnum Samskipa, og enginn starfsmanna félagsins hafi heyrt af kynningunni fyrr en eftir birtingu andmælaskjals, þá vílar stofnunin ekki fyrir sér að gagnrýna það harðlega að stjórnendur Samskipa hafi ekki upplýst um tilvist hennar við skýrslugjöf hjá stofnuninni haustið 2013. Er það í samræmi við annað í framsetningu stofnunarinnar,“ segir í andmælum.
Glærukynningar ekki til umræðu á fundinum
Sakar Samskip SKE um að tengja svo saman „þessi óskyldu verkefni“ við fund forsvarsmanna félaganna 6. júní 2008 „til að skapa þau hughrif að eftir fundinn hafi skapast formlegur vettvangur til þess að halda utan um þau verkefni sem samráðið átti að ná til.“
„Tilvitnaður fundur forsvarsmanna félaganna kom til vegna þess að eigendur Samskipa höfðu orðið þess áskynja að Eimskip stóð höllum fæti eftir miklar offjárfestingar á árunum á undan. Markmið eigenda Samskipa með fundinum var að kanna hvort vilji stæði til þess innan Eimskips að selja Samskipum eignir, nánar til tekið finnska gámaflutningafélagið Containerships og hollenska frystigeymslufyrirtækið Daalimpex. Fundurinn var stuttur og árangurslaus,“ segir í andmælum. „Önnur málefni voru ekki rædd á fundinum.“