Hor­nsteinninn í 4,2 milljarða króna stjórn­valds­sekt Sam­keppnis­eftir­litsins á Sam­skip er hið svo­kallaða „NR – sam­ráð“ sem Sam­skip segir að sé til­búningur eftir­litsins frá A til Ö.

Í and­mælum Sam­skipa sem var skilað inn til eftir­litsins segir að stofnunin hafi hins vegar gert grund­vallar­mis­tök í á­lyktunum sínum.

Nafn­giftin er fengin með því að búa til skamm­stöfun úr „tveimur ó­líkum og alls ó­tengdum verk­efnum“ að mati Sam­skipa. Annars vegar verk­efnið „Nýtt upp­haf“ hjá Eim­skipum og verk­efnið „Revised bud­get“ hjá Sam­skipum.

„Sam­keppnis­eftir­litið slengir þessum tveimur verk­efnum saman til að fá skamm­stöfunina á hið meinta sam­ráð og tengir það síðan við fund for­svars­manna fé­laganna tveggja í að­draganda banka­hrunsins sumarið 2008.“

Sam­skip bendir á aug­ljósan galla í þessari á­lyktun SKE þar sem stofnunin eignar Gylfa Sig­fús­syni, fyrr­verandi for­stjóra Eim­skips glæru­kynninguna „Nýtt upp­haf.“

Verkefnið búið til áður en Gylfi tók við

„Við nánari skoðun á kynningunni má sjá að hún hefur verið búin til (e. „crea­ted“) 10. septem­ber 2007 af for­stöðu­manni hjá Eim­skipi tæpum níu mánuðum áður en fundurinn 6. júní 2008 fór fram og áður en Gylfi Sig­fús­son tók við sem for­stjóri. Þetta vekur sér­staka at­hygli Sam­skipa og virðist sem þessi stað­reynd hafi á ein­hvern ó­skiljan­legan hátt farið al­farið fram hjá Sam­keppnis­eftir­litinu.”

Sam­skip neitar því al­farið að Eim­skip hafi af­hent þeim glæru­kynninguna og segja að efni hennar hafi aldrei verið rætt við stjórn­endur eða annað starfs­fólk Sam­skipa.

„Engin vit­neskja var um til­vist skjalsins innan Sam­skipa fyrr en eftir birtingu and­mæla­skjals Sam­keppnis­eftir­litsins 2018,“ segir Sam­skip.

Kynningin fannst aldrei hjá Samskipum

Samkeppniseftirlitið fór í víðtækar húsleitir hjá Samskipum og Eimskipi árin 2013 og 2014 en stjórnendur Samskipa voru gagnrýndir fyrir að upplýsa ekki um tilvist skjals sem þeir segjast ekki hafa vitað um né fannst við leit.

„Þrátt fyrir að um­rædd glæru­kynning hafi ekki fundist í gögnum Sam­skipa, og enginn starfs­manna fé­lagsins hafi heyrt af kynningunni fyrr en eftir birtingu and­mæla­skjals, þá vílar stofnunin ekki fyrir sér að gagn­rýna það harð­lega að stjórn­endur Sam­skipa hafi ekki upp­lýst um til­vist hennar við skýrslu­gjöf hjá stofnuninni haustið 2013. Er það í sam­ræmi við annað í fram­setningu stofnunarinnar,“ segir í andmælum.

Glærukynningar ekki til umræðu á fundinum

Sakar Sam­skip SKE um að tengja svo saman „þessi ó­skyldu verk­efni“ við fund for­svars­manna fé­laganna 6. júní 2008 „til að skapa þau hug­hrif að eftir fundinn hafi skapast form­legur vett­vangur til þess að halda utan um þau verk­efni sem sam­ráðið átti að ná til.“

„Til­vitnaður fundur for­svars­manna fé­laganna kom til vegna þess að eig­endur Sam­skipa höfðu orðið þess á­skynja að Eim­skip stóð höllum fæti eftir miklar of­fjár­festingar á árunum á undan. Mark­mið eig­enda Sam­skipa með fundinum var að kanna hvort vilji stæði til þess innan Eim­skips að selja Sam­skipum eignir, nánar til tekið finnska gáma­flutninga­fé­lagið Conta­iners­hips og hollenska frysti­geymslu­fyrir­tækið Daali­mpex. Fundurinn var stuttur og árangurs­laus,“ segir í and­mælum. „Önnur mál­efni voru ekki rædd á fundinum.“