Norðurorka, sem m.a. rekur hitaveitu í átta sveitarfélögum við Eyjafjörð og í Þingeyjarsveit á Norðurlandi, hefur þurft að glíma við áskoranir sem tengjast því að útvega heitt vatn.

„Við höfum nú nýtt jarðhitakerfið við Hjalteyri í 20 ár og hefur kerfið staðið undir allri aukningu hitaveitunnar frá þeim tíma. Við getum þakkað fyrir að Hjalteyrarkerfið hafi verið svo gjöfult sem raun ber vitni, ekki síst þegar horft er til þess að heitavatnsnotkun á Akureyri og tengdum veitum hefur tvöfaldast á þessum tuttugu árum,“ segir Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku.

Hann segir jarðhitakerfið við Hjalteyri vera eitt það öflugasta á Íslandi. Aftur á móti hafi komið fram vísbendingar um tengingu jarðhitakerfisins við sjó nú í vetur þegar mældist klór í heita vatninu.

„Það fór að bera á þessu er kerfið var komið í 180 lítra á sekúndu í meðalvinnslu en talið var að það bæri 250-280 lítra á sekúndu í meðalvinnslu. Í mælingum nýverið komu svo fram vísbendingar um aukið klórmagn í jarðhitavatninu sem benda til snefilmagns af sjó.

Í framhaldi voru hitanemar, sem komið var fyrir í Strýtunum á botni Eyjafjarðar, sóttir og bendir aflestur af þeim til hins sama. Þessar vísbendingar benda til að jarðhitakerfið á Hjalteyri sé orðið fullnýtt þ.e. verði ekki lestað frekar.

Það mun koma betur í ljós á næstunni, þegar dæling minnkar, hvernig jarðhitakerfið bregst við. Sé ofangreint raunin blasir við að fyrr þarf að virkja jarðhitakerfið við Syðri-Haga sem verið hefur til rannsókna liðin ár.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Samorkuþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .