Ari Eldjárn var með 881 þúsund krónur á mánuði í laun og er þar með tekjuhæsti uppistandari landsins samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar.

Fleiri uppistandarar, skemmtikraftar og leikarar eru einnig í Tekjublaðinu í ár en mikill munur er á tekjum margra þessara listamanna. Þess má geta að margir á listanum hafa stundað uppistand þrátt fyrir að vera skilgreindir með öðrum titli og sinna öðrum störfum.

Jakob Birgisson, eða Meistari Jakob eins og hann er stundum kallaður, var til að mynda með 790 þúsund krónur á mánuði í laun. Hann hefur víða komið fram undanfarin ár en fyrsta uppistandssýning hans átti sér stað á veitingastaðnum Hard Rock í lok október árið 2018. Miðinn á frumraun Jakobs kostaði þá 1.200 krónur en mikið vatn hefur auðsjáanlega runnið til sjávar síðan þá.

Jóhann Alfreð Kristinsson var þá með 477 þúsund krónur í laun, en hann var meðal annars kynnir í uppistandshópnum Mið-Ísland. Stefán Ingvar Vigfússon, uppistandarinn í VHS-hópnum, var með 316 þúsund krónur á mánuði og Anna Svava Knútsdóttir var með 288 þúsund krónur í laun.

Skemmtikraftar og leikarar

Aðrir sem skilgreindu sig sem „skemmtikrafta“, en hafa þó komið fram sem uppistandarar, voru meðal annars Auðunn Blöndal en hann var með 1,887 milljónir í laun á mánuði. Hann var því tekjuhæsti skemmtikraftur í blaðinu í ár.

Björn Bragi Arnarsson var með 533 þúsund krónur á mánuði en hann opnaði meðal annars nýja mathöll sem ber heitið Vera – matur og drykkur í Vatnsmýrinni í fyrra.

Pétur Jóhann Sigfússon var með 252 þúsund krónur á mánuði í laun en seinasta sýning hans átti sér stað á Sportbarnum Ölver í maí á þessu ári. Pétur hefur einnig verið duglegur að ferðast um landið með sýningar sínar og hefur meðal annars flutt uppistand á Félagsheimili Patreksfjarðar og Tjarnarsalnum í Vogum.

Leikarinn og fyrrum borgarstjórinn Jón Gnarr var með 397 þúsund krónur á mánuði og Sólmundur Hólm Sólmundsson, eða Sóli Hólm, var með 532 þúsund krónur í laun.